Nauðgaði fjórtán ára gamalli stúlku

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Þórði Juhasz á föstudag, en mildaði refsingu hans fyrir að hafa nauðgað fjórtán ára gamalli stúlku í Heiðmörk árið 2016. Í héraðsdómi var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi, en Landsréttur dæmdi til þriggja og hálfs árs fangelsisvistar. Niðurstöðu um einkaréttarkröfu um miskabætur var ekki raskað í landsrétti og Þórði gert að greiða foreldrum stúlkunnar, sem er ófjárráða, miskabætur að fjárhæð 1.600.000 kr.

Þórður, þá 31 árs gamall, kynntist stúlkunni á samfélagsmiðlinum Snapchat árið 2016 og í kjölfar fyrstu kynna ákváðu þau að hittast í persónu. Þórður sótti stúlkuna og ók með hana upp í Heiðmörk. Að því er fram kemur í dóminum nýtti hann sér þar yfirburðastöðu sína vegna aldurs- og þroskamunar og neyddi stúlkuna til að hafa munnmök við sig. Þegar hún reyndi að hætta hélt hann höfði hennar niðri.

Framburður Þórðar ótrúverðugur

Þórður hélt því fram að stúlkan hefði sagst vera 16 ára gömul og tekið þátt í athöfnunum af fúsum og frjálsum vilja. Eftir atburðinn hefði hún sagt rétt til um aldur sinn og nafn. Tekið er fram í dómnum að mikið misræmi hafi verið í framburði Þórðar hjá lögreglu og fyrir dómi einnig. Fyrst sagðist hann ekki kannast við stúlkuna eða málið.

Þótti framburður hans ótrúverðugur um meginatriði málsins og var því ekki á honum byggt í niðurstöðu málsins. Fram kemur í dómnum að lögregla hafi fundið Excel skjal í tölvu Þórðar þar sem yfirlit væri yfir stúlkur sem hann hefði átt í kynferðislegum samskiptum við. Þar væru t.d. upplýsingar um brotaþola í málinu, m.a. um aldur hennar. Í dóminum kemur fram að Þórður geti ekki hafa verið í vafa um aldur stúlkunnar.

Stúlkan kvaðst strax hafa sagt rétt til um aldur sinn þegar hún átti samskipti við Þórð á samfélagsmiðlum. Þótti framburður hennar trúverðugur, en hún sagðist m.a. hafa upplifað sig bjargarlausa með ákærða á afviknum stað fjarri mannabyggð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert