Frítt í strætó á gráum degi

Strætó stoppar við Lækjargötu strætisvagn
Strætó stoppar við Lækjargötu strætisvagn mbl.is/​Hari

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur spáir „gráum degi“ á morgun og miklar líkur eru á að svifryksmengun fari yfir heilsuverndarmörk í kringum stórar umferðaræðar. Strætó mun bjóða fólki að sækja frían dagspassa í Strætóappinu. Hægt verður að nálgast passann undir „Mínir miðar“ í appinu og gilda þeir út mánudaginn 8. apríl.

Strætó, Umhverfisstofnun, Umhverfisráðuneytið, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hvetja íbúa til að sýna samstöðu og ganga, hjóla eða taka strætó á morgun. Myllumerki átaksins á samfélagmiðlum er #grárdagur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Strætó.

„Strætó leggur mikla áherslu á umhverfismál og bætt loftgæði á höfuðborgarsvæðinu er stórt vandamál sem við getum öll tæklað saman,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, í tilkynningu. 

„Einnig er vert að benda á að gráir dagar eru bestu dagarnir til þess að nota vistvænar samgöngur; það er hæglætisveður og engin rigning. Við fáum í raun ekki betri daga á veturna til þess að skilja bílinn eftir heima og leggja okkar að mörkum fyrir bættum loftgæðum.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert