Hatari leggur land undir fót

Liðsmenn Hatara fóru á kostum í viðtali í Amsterdam um …
Liðsmenn Hatara fóru á kostum í viðtali í Amsterdam um helgina. Ljósmynd/Skjáskot

„Ef ABBA hefðu verið marxískari, jafnvel póstmarxískari,“ sögðu liðsmenn Hatara í viðtali í  Amsterdam um helgina, spurðir hvernig lýsa mætti tónlistarstefnu sinni. Í Amsterdam fluttu þeir lag sitt Hatrið mun sigra við góðar undirtektir tónleikagesta á Eurovision hátíð sem þar var haldin um helgina.

„Stíll okkar er undir áhrifum af hámenningarlegri andkapítalískri óperu, kabarett-sprunginni gjörningalist, popptónlist, BDSM o.fl.“ sögðu liðsmenn Hatara. Þeir sögðu að tónlistin ætti einnig rætur í pönkinu. Sögðust þeir auðmjúkir að vera fulltrúar Íslands í Eurovision og að það væri mikill heiður. „Atriði okkar verður vel æft, raftónlistargjörningur, og við munum vinna með svipaða hluti og áður,“ sögðu þeir.

Athygli vekur að á meðan viðtalinu stendur nuddar Matthías Tryggvi axlir félaga síns. 

„Það blundar í okkur dálítil taugaspenna í dag,“ sagði hann. „Það er ekki einfalt verk að vinna að endalokum kapítalismans,“ bætti Klemens við og sagði Matthías hafa nuddað axlir sínar undanfarna daga af þeim sökum. „Hann nuddar mig í fimm til tíu mínútur á tveggja klukkustunda fresti,“ sagði hann. Matthías sagði að sveitin hefði þurft að velja á milli sviðshönnuðar eða nuddara.

„Því er ég í augnablikinu hvort tveggja söngvari og nuddari,“ sagði Matthías.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert