Ráða færra sumarstarfsfólk í ár

Frá Keflavíkurflugvelli
Frá Keflavíkurflugvelli mbl.is/Eggert

Isavia mun að öllum líkindum ráða færra sumarstarfsfólk til starfa á flugvellinum í Keflavík en undanfarin ár í ljósi gjaldþrots WOW air. Engar ákvarðanir hafa þó verið teknar um aðrar breytingar á starfsmannamálum, ef undan er skilið að sex manns var sagt upp hjá dótturfélaginu Fríhöfninni, um síðustu mánaðarmót. Þetta segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is.

Samtals vinna um 1.430 manns hjá Isavia, en inn í þeirri tölu eru starfsmenn hjá bæði Fríhöfninni og Tern Systems, öðru dótturfélagi Isavia. Fyrirtækið hefur undanfarin ár ráðið yfir 400 sumarstarfsmenn, en umsækjendur hafa verið nálægt tvö þúsund á ári.

Guðjón segir að fyrirtækið fari enn yfir áhrifin af brotthvarfi WOW air, en að engar ákvarðanir verði teknar í flýti. Þá segir hann að ekki hafi heldur verið teknar neinar ákvarðanir um breytingu á uppbyggingu vallarins í tengslum við masterplanið, uppbyggingaáætlun vallarins til ársins 2040. Vísar Guðjón í orð Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia, um að nú sé í gangi hönnunarvinna fyrir næstu áfanga og sú vinna muni halda áfram.

Við gjaldþrot WOW air var TF-GPA, af gerð Airbus A321-200 neo, sem er í eigu Air lease corporation (ALC), kyrrsett í Keflavík af Isavia vegna ógreiddra skulda WOW air. Auk hennar var önnur vél í eigu sömu eigenda og sömu gerðar, með kallmerkinu TF-SKY, eftir á flugvellinum. Hún var hins vegar ekki kyrrsett. TF-SKY fór af landi brott fyrir helgi, en viðræður hafa átt sér stað við ALC síðan.

Guðjón segir enga breytingu hafa orðið á því máli frá því fyrir helgi. Fulltrúar Isavia hafi rætt við fulltrúa ALC og gert þeim ljóst að vélin verði kyrrsett þangað til skuldin hafi verið greidd upp. Isavia bíði nú eftir svari frá eigendunum um framhaldið. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um viðræðurnar á milli Isavia og ALC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert