Skora á þingmenn að hafna orkupakkanum

Samtökin Orkan okkar skora á alla þingmenn að segja nei …
Samtökin Orkan okkar skora á alla þingmenn að segja nei við staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn, það er þriðja orkupakkanum. mbl.is/​Hari

Samtökin Orkan okkar skora á þingmenn að hafna þriðja orkupakka ESB. Fyrri umræða um þingsályktunartillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um orkupakkann fer fram á Alþingi síðdegis. 

Í greinargerð með áskoruninni segir að ódýr og örugg raforka sé undirstaða góðra lífskjara í landinu og að varast ætti að innleiða löggjöf sem sniðin er fyrir aðstæður í orkumálum sem eru mjög frábrugðnar þeim sem við búum við á Íslandi. Orkupakkinn skerði sjálfsákvörðunarrétt Íslands í raforkumálum.

Grafi undan sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar

„Löggjöfin er samin af ESB og tekur því ekki mið af vilja íslenskra kjósenda, auk þess sem hluti löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvalds í orkumálum flyst úr landi. Orkupakkar [ESB] grafa því undan sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar um eigin auðlindir og geta haft ófyrirséð áhrif á lífskjör í landinu. Þessi þróun er líka í hrópandi mótsögn við afstöðu almennings og yfirlýsingar sumra stjórnmálaflokka um að ekki skuli framselja vald í orkumálum til erlendra stofnana,“ segir meðal annars í greinargerðinni. 

Samtökin skora á þingmenn að hafna þriðja orkupakkanum og beina um leið þeim tilmælum til sameiginlegu EES-nefndarinnar að Ísland verði undanþegið innleiðingu þriðja orkupakkans enda er Ísland ekki tengt raforkumarkaði ESB.

Orkan okkar eru samtök þeirra sem vilja standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt Íslands í orkumálum. Samtökin voru stofnuð í október 2018. Almenningi gefst kostur á að taka þátt í áskoruninni á heimasíðu samtakanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert