Klaustursmál rætt í Evrópuráðsþinginu

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Hari

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks­ins, hvatti á Evr­ópuráðsþing­inu í dag menn til að fara varlega við að innleiða refsingar, refsingar sem væru ákveðnar af pólitískum andstæðingum

Til­efni um­mæla hans var álykt­un­ar­til­laga um aðgerðir gegn kyn­ferðisof­beldi sem Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir, þingmaður Pírata og formaður laga- og mann­rétt­inda­nefnd­ar Evr­ópuráðsþings­ins, mælti fyr­ir. Í álykt­un­ar­til­lög­unni minnt­ist Þór­hild­ur Sunna lít­il­lega á Klaust­urs­málið og svaraði Bergþór henni í þingsal Evr­ópuráðsþings­ins.

Sagði Bergþór að þó að þingmenn nytu vissulega takmarkaðra réttinda er kæmi að persónuvernd, þá þyrftu þeir engu að síður að njóta ákveðina réttinda á einkalífi og ættu vissa kröfu á sanngirni á tímum stjórnmálaumróts.

„Við getum ekki leyft okkur að hoppa á vagn pólitísks rétttrúnaðar í hvert skipti sem hann á leið um og beita hentistefnu þegar flókin mál koma upp,“ sagði Berþór í ræðu sinni. „Með því er ég ekki að gefa í skyn að umræður um kynjamisrétti í þingi eigi ekki að skoða sem slíkar, heldur á ég við að það sé alltaf hætta á að pólitískir anstæðingar noti tækifærið til að ýkja hlutina, til að hygla eigin stefnu, og gera þá verri en þeir raunverulega eru.“ 

Hann sagði að það hefði tekið hópinn sem sat að sumbli á Klaustri um fjóra mánuði að fá viðeigandi upplýsingar til að geta gefið raunhæfa mynd af atburðunum sem hefðu raunverulega átt sér stað þetta kvöld.

Sagði hann að þegar búið væri að skoða handrit af því samtali sem átti sér stað á barnum og myndbandsupptökur, fengist allt önnur mynd, sem er í grunninn það sama og hann sagði í samtali við Morgunblaðið undir lok síðasta mánaðar.

Þórhildur Sunna svaraði Bergþóri fullum hálsi og sagði hann fara með staðlausa stafi, eins og hann og flokksfélagar hans hefðu gert undanfarna mánuði. Hún sagði að Bergþór og félagar hans hefðu ekki getað hrakið það að hann og fimm aðrir stjórnmálamenn settust niður á bar og hlutgerðu kvenkyns stjórnmálamenn, höfðu heimilisofbeldi í flimtingum og gerðu lítið úr fötluðum aðgerðasinna, til þess að nefna nokkur dæmi.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Eggert

„Núna vill hann að þið trúið því að hvati minn til að skrifa þessa skýrslu hafi verið af pólitískum toga. Kæru samstarfsmenn, skýrslan er byggð á pólitískum hvötum, en ekki til þess að ráðast á [Bergþór] Ólason, heldur til þess að ráðast gegn því pólitíska umhverfi þar sem konur eru hafðar út undan, þær niðurlægðar eða hlutgerðar á grundvelli kyns. Það er pólitík sem er ég er stolt af að tala fyrir,“ sagði Þórhildur Sunna.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is