Óska endurskoðunar yfirdeildar í Landsréttarmáli

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ráðherra dómsmála.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ráðherra dómsmála. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómsmálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í dag ákvörðun sína um að íslenska ríkið myndi óska eftir endurskoðun yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu á dómi MDE í Landsréttarmálinu svokallaða. Í málinu komst meirihluti dómsins að þeirri niðurstöðu að annmarkar á meðferð ráðherra og Alþingis við skipun dómara við Landsrétt fælu í sér brot gegn mannréttindasáttmála Evrópu um að skipan dómstólsins sé ákveðin með lögum.

Greint er frá þessu í tilkynningu frá Stjórnarráðinu, en þar er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ráðherra dómsmála, að hún telji brýnt að fara þessa leið. Við höfum síðustu vikur skoðað mismunandi fleti þessa mikilvæga máls. Eftir þá skoðun tel ég rétt að óska endurskoðunar hjá yfirdeild Mannréttindadómstólsins. Ég tel brýnt að fara þessa leið í ljósi þess hve mikilvæga hagsmuni málið snertir hér á landi. Ég mun halda áfram að skoða aðra fleti málsins en á þessu stigi verða ekki teknar frekari ákvarðanir,” er haft eftir henni.

Þá segir í tilkynningunni að dómur MDE hafi ekki aðeins áhrif hér, heldur um alla Evrópu hvað varðar spurningar um það hvort skipan dómstóla sé ákveðin með lögum í þeim skilningi sem lagður er til grundvallar í niðurstöðu meirihlutans. Er það mat sérfræðinga dómsmálaráðuneytisins, að höfðu samráði við ríkislögmann og dr. Thomas Horn, málflutningsmann og sérfræðing í mannréttindum og réttarfari, að leita eigi endurskoðunar á dómi MDE. Kemur fram að málið veki upp veigamiklar spurningar um túlkun og framkvæmd mannréttindasáttmála Evrópu.

Málið snýst um skipan dómara við Landsrétt.
Málið snýst um skipan dómara við Landsrétt. mbl.is/Hari

 

Líkur standa til þess að niðurstaða um það hvort yfirdeildin taki dóminn til endurskoðunar fáist innan fárra mánaða. Taki yfirdeildin málið til endurskoðunar verður þess óskað að málið njóti forgangs en MDE hefur frá upphafi skilgreint málið mikilvægt og hlaut það flýtimeðferð á fyrri stigum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert