Sagði skýrslu Kunz vera hlutdræga

Frá aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Suðurlands.
Frá aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Suðurlands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Magnús Óskarsson, lögmaður Vals Lýðssonar, krafðist sýknu yfir skjólstæðingi sínum í Landsrétti í morgun. Hann mótmæli lýsingu ákæruvaldsins á því sem átti sér stað á bænum Gýgjarhóli II í Bláskógabyggð og sagði málsatvik vera mjög óljós.

Magnús sagðist ósáttur við hversu mikil vigt var lögð í máli ákæruvaldsins í blóðferlarannsóknir á vettvangi, því ekki sé um viðurkennd vísindi að ræða. Hann taldi skýrslu Sebastian Kunz réttameinafræðings í málinu vera hlutdræga og að hún hafi verið notuð sem vopn til að ná fram sakfellingu. Ekki hafi verið um að ræða álit óháðs sérfræðings, heldur sérfræðings sem hafi lífsviðurværi sitt af því að starfa fyrir lögreglu og búa til skýrslur sem eru nýttar fyrir rannsóknir hennar.

Hann talaði um að Ragnar hefði veist að Vali og meðal annars skallað hann. Verjandinn minntist á að garðáhöld hafi verið í þvottahúsinu þar sem Ragnar fannst látinn. Einnig hafi þar verið öxi, auk þess sem Valur var með vasahníf í vasanum. Til þeirra hefði ákærði auðveldlega getað gripið ef hann hefði ætlað sér að bana bróður sínum. Einnig hefði verið hnífasett í eldhúsinu við hliðina á þvottahúsinu sem ekki var notað.

Frá Landsrétti.
Frá Landsrétti. mbl.is/Hanna

Magnús mótmælti því að hægt sé að nota samtal ákærða við Neyðarlínuna við meðferð málsins, meðal annars vegna þess að hann hafi verið mjög ölvaður.

Hann bætti við að ákærði hefði ekki gert neinar tilraunir til að fela eitt né neitt eftir að Ragnar fannst látinn. Hann hafi ekki þrifið upp á vettvangi eða reynt að spilla neinu, auk þess sem hann þvoði sér hvorki í framan né um hendurnar.

Hann sagði ölvun hafa verið mikinn áhrifavald við andlát Ragnars og nefndi að Valur myndi ekki eftir því að hafa orðið bróður sínum að bana. Hann sagði refsinguna hafa verið þunga í héraði og miskabæturnar of háar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert