Sagði stofnanatregðu vera ástæðu synjunar

Ægir Guðni Sigurðsson og Ragnheiður Sveinþórsdóttir, móðir hans. Hún hefur …
Ægir Guðni Sigurðsson og Ragnheiður Sveinþórsdóttir, móðir hans. Hún hefur barist fyrir því að Sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við tannréttingameðferð vegna fæðingargalla en Ægir fæddist með skarð í gómi. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hafði samband við Ragnheiði Sveinþórsdóttur símleiðis í gær í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins um að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hefðu synjað beiðni um greiðsluþátttöku í læknismeðferð sem níu ára sonur hennar, Ægir Guðni Sigurðsson, fær vegna fæðingargalla.

„Hún vildi fullvissa mig um það að það væri verið að vinna í þessu í ráðuneytinu. Þetta væri vegna stofnanatregðu sem ætti ekki að líðast,“ segir Ragnheiður í umfjöllun um mál sonar hennar í Morgunblaðinu í dag. Ægir Guðni fæddist með skarð í gómi og vegna synjunarinnar hafa foreldrar hans þurft að greiða meðferðina sjálf.

Síðasta haust var reglugerð breytt og stóðu vonir til að sú breyting myndi tryggja að greiðsluþátttaka myndi ná til þeirra barna sem áður ekki nutu slíkrar aðstoðar við meðferðarkostnað. „Svandís sagði að hún hefði látið breyta reglugerð og að hennar vilji hefði komið fram opinberlega,“ segir Ragnheiður og kveðst bjartsýn hvað framhaldið varðar. „Ég var það hins vegar líka þegar reglugerðarbreytingin fór í gegn, þannig að ég er alveg meðvituð um að það er ekkert fast fyrr en að við erum búin að fá samþykki SÍ, en mig langar virkilega að trúa því að núna verði þetta klárað,“ bætir hún við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert