Segir leigusamninginn í „fullu gildi“

Embætti landlæknis er til húsa á Barónsstíg 47.
Embætti landlæknis er til húsa á Barónsstíg 47. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Eigandi Barónsstígs 47 þar sem embætti landlæknis er til húsa segir leigjendur bera ábyrgð á ástandi húsnæðisins. Meint rakavandamál í húsinu megi rekja til loftræstiskorts vegna lélegrar umgengni leigutakans. Þetta kemur fram í skriflegu svari Þorsteins Steingrímssonar eiganda hússins. 

Nýverið rifti leigutakinn, embætti landlæknis, leigusamningi til ársins 2026 á þeim grundvelli að leigusali hafi ekki bætt úr annmörkum á húsnæðinu. Þorsteinn segir leigusamninginn og stöðu hans „í fullu gildi“ og „engin efni til riftunar við mig“.

Alma D. Möller landlæknir sagðist hafna öllum ásökunum Þorsteins um sóðaskap og lélega umgengni sem hefði orsakað mygluskemmdir í samtali við Morgunblaðið í dag. Sagði hún að að skýrsla matsmanns hefði sýnt skýrt að skemmdirnar hefðu ekki með embættið að gera.

Þorsteinn vísar því alfarið á bug að hann sem eigandi hússins beri ábyrgð á orðnum hlut. Hann hafi sinnt eðlilegu viðhaldi á húsnæðinu og segir embættið ekki „gangast við eigin ábyrgð“ og „skelli skuldinni á aðra“. Hann spyr jafnframt hvort það sé „ekki sanngjörn krafa að það sem maður lánar eða leigir verði skilað i sama ástandi?“

Ákvörðun embættis landlæknis um riftunina var tekin eftir að niðurstöður þriðju skýrslunnar á húsnæðinu lágu fyrir. Óháður matsmaður var fenginn til að taka út húsið eftir að bæði eigandi hússins og embættið létu skoða húsnæðið hvort í sínu lagi.  

Fyrirhugað er að embættið flytji úr húsnæðinu og hefur þegar auglýst eftir leiguhúsnæði undir starfsemina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert