Skeytti engu um ástand bróður síns

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkssaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkssaksóknari. mbl.is/Eggert

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sagði í Landsrétti engan vafa leika á því að Valur Lýðsson hafi orðið bróður sínum Ragnari Lýðssyni að bana á síðasta ári.

Viðfangsefnið í dag sé að velta fyrir sér hvort um gáleysi hafi verið að ræða eða ekki. Valur var dæmdur í 7 ára fangelsi í héraðsdómi fyrir manndráp af gáleysi en ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Landsréttar og fer fram á 16 ára dóm yfir Vali.

Helgi sagði ekkert benda til þess að Valur hafi fyrir fram ætlað að verða bróður sínum að bana. Hann benti þó á að ekki hafi verið um að ræða eitt kjaftshögg heldur ítrekaðar árásir. Langlíklegast hafi verið að Ragnar dæi vegna þeirra.

Hann sagði ákærða hafa engu skeytt um ástand Ragnars. „Það átti ekkert að stoppa við það að brotaþoli væri rænulaus,“ sagði hann og bætti við að það væri engin vörn fólgin í því að segja að Valur hafi verið ölvaður. Sagði hann ljóst að hann hafi sparkað í höfuð brotaþola mjög líklega eftir að hann missti meðvitund. Um hafi verið að ræða stórhættulega atlögu, líklega til að valda lífshættu.  

Helgi bætti við að í framhaldinu hafi Valur trampað ofan á rifjahylki bróður síns þegar hann lá í gólfinu. Offorsið hafi verið mikið og gat Ragnar enga björg sér veitt.

Hann sagði háttsemina stórhættulega og að Ragnar hafi verið sviptur lífi með ítrekuðum þungum spörkum í höfuðið. „Það fer ekkert á milli mála að honum hljóti að hafa verið ljóst að hann væri að ganga af bróður sínum dauðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert