Fangelsi eins og glæpamannaskóli

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga á Íslandi.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga á Íslandi. mbl.is/Hari

„Við þurfum að afglæpavæða fíkniefnaneyslu,“ sagði Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga á Íslandi, í samtali við mbl.is eftir hádegisfund um skipulagða brotastarfsemi á Íslandi frá hagrænu sjónarmiði.

Guðmundur Ingi og Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn héldu stutt erindi en Guðmundur fór yfir sitt lífshlaup. Hann er 45 ára og hefur samtals verið dæmdur í 24 ára fangelsi frá aldamótum fyrir skipulagningu á fíkniefnasmygli.

Hann sagði að það þyrfti að breyta stefnunni í fangelsum en fanga bíði lítið annað en að fara í sama far glæpa og áður þegar þeir losna út. 

Guðmundur Ingi fjallaði um sína reynslu af glæpum.
Guðmundur Ingi fjallaði um sína reynslu af glæpum. mbl.is/Hari

Þekkti ekkert annað en að fá borgað svart

Guðmundur ólst upp hjá góðri fjölskyldu í Breiðholtinu en þar var engin óregla. Hann byrjaði að vinna 13 ára og þá fékk hann borgað svart og stofnaði fyrsta fyrirtækið sitt þremur árum síðar. Þar fengu allir borgað svart, enda þekkti hann ekki annað.

Árið 1997 flutti Guðmundur til Spánar, prófaði kókaín í fyrsta skipti, og tapaði öllu vegna neyslu. „Þarna er maður kominn í einhvers konar gróðafíkn og þá var bara eitt að gera til að viðhalda henni og það var smygl. Með því móti var hægt að viðhalda neyslunni og lífsstílnum,“ sagði Guðmundur.

Áttu að verða betri eftir geymslutímann

Smyglið gekk ágætlega þangað til hann var handtekinn 28. desember 1999 en hann sat inni í átta ár. „Innan veggja fangelsis tekur við svart hagkerfi ríkisins. Fangar fengu ekki laun heldur þóknanir og menn fengu borgað svart, sem var alls ekki til þess gert að hjálpa neinum að taka á sínum málum,“ sagði Guðmundur.

„Þetta er bara geymsla en eftir geymslutímann áttu að verða betri, borga skatta og fleira en það gerist aldrei,“ bætti Guðmundur við.

Gestir fylgdust með.
Gestir fylgdust með. mbl.is/Hari

Fara beint í sama farið eftir að afplánun lýkur

Hann sagði að langflestir fangar færu aftur í það sem þeir kunni, glæpi, þegar þeir losni út. Það átti við í hans tilfelli þegar hann var frjáls ferða sinna árið 2007. „Ég fór beint til Spánar í sama farið. Þetta var það eina sem ég kunni en ég fékk ekkert tækifæri til að læra í fangelsinu og þetta var eini möguleikinn fyrir mig til að lifa,“ sagði Guðmundur.

„Eina sem kemst að er að græða peninga og það lokar á allt annað,“ sagði Guðmundur en hann velti afleiðingum þess ef lögreglan myndi góma hann lítið fyrir sér meðan á smyglinu stóð.

„Síðan er ég aftur tekinn árið 2012 en ég hef greinilega verið afskaplega lélegur smyglari,“ sagði Guðmundur og glotti. Við komuna í fangelsið var allt eins og það var um aldamótin:

„Ég var aftur kominn inn í svarta hagkerfið og launin voru enn 415 krónur á tímann. Þetta var engin betrun en við erum bara með refsistefnu,“ sagði Guðmundur. Hann bætti við að sambönd myndist milli fanga bak við lás og slá þar sem margir þeirra fari í skipulagða glæpastarfsemi eftir að afplánun lýkur. „Fangelsi hér á landi eru eins og glæpamannaskóli.“

Allir myndu græða á betrunarvist

Guðmundur sagði betrunarvist betri fyrir alla. Með því myndi endurkomum í fangelsi fækka, kostnaður ríkisins minnka og fórnarlömbum fækka. Auk þess myndu dæmdir afbrotamenn eiga möguleika á að fóta sig eftir fangavist.

Hann benti á að fangar væru oft og tíðum skuldum vafðir við komuna úr fangelsi og nefndi sakarkostnað, meðlag og sektir í því samhengi. „Ef menn fara að vinna tekur ríkið meirihlutann af því í gjöld. Menn sem koma úr fangelsi fara ekki að vinna eðlilega vinnu.“

Guðmundur benti á að það sem á sér stað í fangelsunum gerist yfirleitt skömmu síðar í samfélaginu. „Þegar eftirlit er aukið gegn einhverju ákveðnu efni í fangelsinu breytist mynstrið, menn fara í harðari efni og deyja af því. Þetta gerist á sama hátt í samfélaginu.“

Guðmundur tók smá tíma í að svara því hvort lögreglan gæti ekki notað reynslu hans til aðstoðar. „Ég tók einmitt í höndina á Karli Steinari áðan og það var söguleg stund. Hann hefur eytt löngum tíma í að fylgjast með mér, sem er mjög sérstakt, og veit alls konar hluti um mig,“ sagði Guðmundur og hélt áfram:

Ég er í nefnd á vegum félagsmálaráðherra sem snýr að því að bæta félagslegan hag fanga eftir afplánun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert