Felur í sér lagalega óvissu

Friðrik Árni Friðriksson Hirst landsréttarlögmaður.
Friðrik Árni Friðriksson Hirst landsréttarlögmaður. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Færa má rök fyrir því að meiri lagaleg óvissa felist í þeirri leið sem ríkisstjórnin hyggst fara varðandi innleiðingu á þriðja orkupakka Evrópusambandsins en því ef Alþingi hafnaði því að samþykkja orkupakkann með því að aflétta ekki stjórnskipulegum fyrirvara vegna hans.

Þetta segir Friðrik Árni Friðriksson Hirst landsréttarlögmaður aðspurður í samtali við mbl.is en hann samdi ásamt Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, álitsgerð um þriðja orkupakkann að beiðni utanríkisráðuneytisins. Miklar deilur hafa staðið um þriðja orkupakkann og er málið þessa dagana til umfjöllunar á Alþingi.

Friðrik segist aðspurður ekki telja að lagaleg óvissa ríki í raun um þær afleiðingar sem það hefði ef Alþingi hafnaði því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna þriðja orkupakkans. Hins vegar gæti það haft pólitíska óvissu í för með sér.

Möguleg lausn en ekki gallalaus

Tekin var ákvörðun af sameiginlegu EES-nefndinni í maí 2017 um að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn. Það var þó gert með fyrirvara um samþykki Alþingis, það er afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara, þar sem innleiðing hans kallar á breytingar á íslenskum lögum.

Hins vegar var ekki farið fram á undanþágur frá innleiðingu þriðja orkupakkans í sameiginlegu EES-nefndinni af hálfu íslenskra stjórnvalda sem hefði verið hægt að gera á þeim tíma. Alþingi getur þó hafnað því að veita samþykki sitt.

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Þetta hefði það í för með sér að sögn Friðriks að ákveðið ferli færi í gang samkvæmt EES-samningnum sem þýddi að málið færi aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem hægt væri að fara fram á lögformlega fyrirvara eða undanþágur. Málið færi þannig í raun aftur á byrjunarreit.

Þetta er ein þeirra leiða sem Friðrik og Stefán lögðu til í álitsgerð sinni. Hins vegar bentu þeir einnig á aðra hugsanlega lausn sem þó væri ekki gallalaus að þeirra sögn. Það er að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara að fullu en innleiða ekki þann hluta þriðja orkupakkans sem kann að ganga gegn stjórnarskránni. Tekið er skýrt fram í álitsgerðinni að þarna gæti verið um mögulega lausn að ræða sem sé, sem fyrr segir, ekki án galla.

Gæti reynt á málið fyrir dómstólum

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara þessa leið en í henni felst að sögn Friðriks að þeim álitamálum sem snúa að stjórnarskránni sé í raun slegið á frest. Hann telur að í þeirri leið felist ákveðin málamiðlun. Fyrr eða síðar þurfi hins vegar að taka á ný afstöðu til álitaefna sem varða stjórnarskrána.

Hvað lagalega óvissu varðar vegna leiðar ríkisstjórnarinnar segir Friðrik aðspurður til að mynda ekki útilokað að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) teldi ástæðu til þess að höfða samningabrotamál fyrir EFTA-dómstólnum á þeim forsendum að Íslandi beri að innleiða þriðja orkupakkann að fullu í landslög.

Það yrði þá gert á þeim grundvelli að Alþingi hefði aflétt stjórnskipulegum fyrirvara vegna þriðja orkupakkans eins og hann hefði verið tekinn upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Mögulegt væri að málið þróaðist með þeim hætti.

Eins væri mögulegt að einstaklingar eða lögaðilar höfðuðu skaðabótamál gegn íslenska ríkinu ef þeir teldu að íslensk landslög tryggðu þeim ekki þann rétt sem þeir ættu að njóta samkvæmt EES-samningnum.

Þekkir ekki fordæmi fyrir leiðinni

Friðrik segir aðspurður að pólitísk yfirlýsing Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Miguel Arias Canete, framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, þess efnis að sá hluti þriðja orkupakkans sem varðar raforkutengingar á milli landa eigi ekki við um Ísland, gæti haft einhverja þýðingu Íslandi í hag en sé hins vegar ekki lagalega skuldbindandi.

„Þetta er alla vega ekki jafngilt því ef undanþága væri tekin upp í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Pólitíska yfirlýsingin er ekki lagalega skuldbindandi en kynni þó að hafa þýðingu á einhvern hátt eins og að það yrði þá hugsanlega litið til hennar ef á myndi reyna.“

Spurður hvort einhver fordæmi séu fyrir því að fara þá leið sem ríkisstjórnin hyggst fara segist Friðrik ekki þekkja nein dæmi þess í svipinn. Spurður hvort staða Íslands verði mögulega veikari eftir að hafa aflétt stjórnskipulegum fyrirvara þegar takast þarf á við álitamál varðandi stjórnarskrána segir hann:

„Vissulega erum við þá hugsanlega að gefa frá okkur þann möguleika að óska eftir undanþágum á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ég held að það liggi í sjálfu sér í hlutarins eðli að ef vilji stæði til þess á síðari tímapunkti þá eru þeir möguleikar afskaplega takmarkaðir þegar búið er að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum og staðfesta þessa ákvörðun.“

mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert