Kalla eftir alþjóðlegum plastsamningi

Umhverfisráðherrar Norðurlandanna komu saman á fundi á Nauthóli í morgun. …
Umhverfisráðherrar Norðurlandanna komu saman á fundi á Nauthóli í morgun. Fundurinn var haldinn hér á landi þar sem Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Umhverfisráðherrar Norðurlandanna kalla eftir nýjum alþjóðlegum samningi til að draga úr og fyrirbyggja losun plasts og örplasts í hafið. Yfirlýsingin þess efnis var samþykkt á fundi ráðherranna sem haldinn var í Reykjavík í morgun, þar sem Ísland gegnir formennsku í norrænu ráðherranefndinni í ár. 

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu er talað um plastmengun í hafi sem hnattrænan umhverfisvanda sem ógnar lífi og vistkerfum jarðar. „Umhverfisráðherrar Norðurlandanna leggja áherslu á að vandinn sé í eðli sínu hnattrænn og ekkert eitt ríki geti leyst hann upp á sitt einsdæmi. Það þurfi sterkari aðgerðir á heimsvísu til að árangur geti náðst,“ segir í tilkynningu.

Yfirlýsing ráðherranna verður send til stofnana Evrópusambandsins og Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem og G7- og G20-ríkjanna.

„Norðurlöndin vilja setja markið hátt og vera leiðandi við að draga úr umhverfisáhrifum vegna plasts. Með yfirlýsingunni í dag styrkjum við stöðu okkar sem leiðandi afl á alþjóðavísu við að takast á við þetta brýna úrlausnarefni,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, í tilkynningu.  

Í yfirlýsingunni er norræna ráðherranefndin beðin um að láta kanna hvaða tilteknu þætti ætti að taka með í alþjóðlegu samkomulagi gegn plastmengun í hafi, komi til þess. Niðurstöður vinnunnar verða meðal annars lagðar fyrir sérfræðihóp sem nú er að störfum á vegum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og fjallar um plastmengun og eflingu alþjóðlegra stjórnkerfa tengt henni.

Hér má lesa yfirlýsingu norrænu umhverfisráðherranna í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert