Landsliðsnefnd fundar um mál Guðmundar

Sigurbjörn Bárðarson, þjálfari landsliðsins í hestaíþróttum.
Sigurbjörn Bárðarson, þjálfari landsliðsins í hestaíþróttum. mbl.is/Eyþór Árnason

Landsliðsnefnd hestaíþrótta mun funda á morgun um mál Guðmund­ar Friðriks Björg­vins­sonar, eins besta knapa lands­ins og landsliðsmanns í hestaíþrótt­um. Héraðsdómur Suðurlands komst sl. föstudag að þeirri niðurstöðu að Guðmundur Friðrik hefði hlunn­farið eig­anda hests sem hann tamdi og tók síðar að sér að selja í umboðssölu.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Guðmundur Friðrik ætti að greiða eiganda hestsins 10,4 millj­ón­ir í skaðabæt­ur vegna máls­ins og greindi lögfræðingur hans frá því í gærkvöldi að málinu yrði áfrýjað til Landsréttar.

„Það er búið að kalla saman landsliðsnefndarfund til að fara yfir málið,“ segir Sigurbjörn Bárðarson, þjálfari landsliðsins í hestaíþróttum, og kveður nefndina munu ígrunda og skoða stöðuna og málavöxtu.

Kveðið á um prúðmannlega og íþróttamannslega framkomu

„Þetta mál er hins vegar ekki alveg til lykta leitt þar sem á að áfrýja því til Landsréttar og þá getur orðið viðsnúningur á því þar. Á þessu stigi er því hæpið að landsliðsnefnd grípi til drastískra aðgerða.“

Ekki sé kominn endanlegur dómur í málinu fyrr en dómur Landsréttar liggur fyrir. „Á þessu stigi þá værum við að taka dómsvaldið í okkar hendur og það væri eðli málsins samkvæmt ekki rétt,“ bætir hann við.

Landsliðsmönnum í hestaíþróttum ber að vera með góða nærveru innan vallar sem utan og segir Sigurbjörn kveðið á um bæði prúðmannlega og íþróttamannslega framkomu í reglunum. „Þetta mál er hins vegar að mínu mati á því stigi núna að ekki er hægt að taka afstöðu til þess.“

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi Guðmund Friðrik Björgvinsson, landsliðmann í hestaíþrótt­um, til …
Héraðsdómur Suðurlands dæmdi Guðmund Friðrik Björgvinsson, landsliðmann í hestaíþrótt­um, til greiðslu skaðabóta í máli sem varðar stóðhest­inn Byl frá Breiðholti, sem hann hafði í umboðssölu. mbl.is/Styrmir Kári

Fráleitt að hesturinn hafi tvöfaldast í raunvirði

Sam­kvæmt dómi héraðsdóms sá Guðmund­ur Friðrik um að selja hest­inn Byl frá Breiðholti til fé­lags sem er í eigu hans og eig­in­konu hans, Takt­hesta ehf., á 9,5 millj­ón­ir króna um miðjan nóv­em­ber 2014. Hest­ur­inn var síðan seld­ur áfram nokkr­um vik­um síðar til norska hesta­manns­ins Stians Peder­sen og fé­lags­ins Stall SP Breed­ing AS, á 19,9 millj­ón­ir króna.

Dóm­ari við Héraðsdóm Suður­lands komst að þeirri niður­stöðu að Guðmund­ur og Takt­hest­ar ehf. ættu að greiða Gunn­ari Ingvars­syni, upp­runa­leg­um eig­anda hests­ins, 10,4 millj­ón­ir króna í skaðabæt­ur vegna þess tjóns sem hann varð fyr­ir vegna viðskipt­anna, þar sem fráleitt væri að „hest­ur­inn hafi tvö­fald­ast að raun­v­irði á þeim tíma, hvað sem allri þjálf­un líður,“ að því er seg­ir í niður­stöðukafla dóms­ins.

Lukkudísir yfir verð-umskiptum

Sigurbjörn segir mjög algengt að hestar séu seldir í gegnum milliliði og að það sé gert með þeim hætti að milliliðirnir séu með hestinn í þjálfun og sjái um að selja hann fyrir eigandann, sem mögulega hafi ekki jafn góð sambönd og milliliðurinn. Hann segir líka töluvert um að hestar séu sendir til ákveðinna aðila sem sjái svo um sölu þeirra.

Spurður hvort viðlíka verðmætaaukning og átti sér stað í tilfelli Byls sé algeng, kveðst Sigurbjörn ekki vera búinn að kynna sér dóminn í þessu einstaka máli, sem sé einkamál.

„Hestar geta hins vegar breyst við það að fara úr höndum áhugamanns yfir að fara í hendur atvinnumanns og verðmætasköpunin verður oft til þar, það er ekkert óeðlilegt við að hestur verði verðmætari við það,“ segir hann. Sá sem selji hest megi líka gera ráð fyrir verðmætaaukningu við slíkt, enda sé það hluti af því sem viðkomandi sé að gera með því að setja hestinn í sölumeðferð.

Nokkuð sérstakt sé hins vegar hversu stórt stökk sé á milli í þessu staka máli. „Það þarf þrjá til, eiganda hestsins, milliliðinn og svo kaupandann, þannig að ég held að það séu líka einhverjar lukkudísir yfir því að svona mikil umskipti verði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert