Mótmæla lokun Kelduskóla – Korpu

Fjölmenni var á fundinum í kvöld.
Fjölmenni var á fundinum í kvöld. Ljósmynd/Ófeigur Lýðsson

Mikill meirihluti þeirra íbúa sem sóttu íbúafund í Staðahverfi í Reykjavík í kvöld hafnar tillögum um lokun Kelduskóla – Korpu, sem borgin hefur kynnt. Þess er meðal annars krafist í ályktun fundarins að borgin „starfi í samræmi við gildandi deiliskipulag“ hverfisins, sem kveður um á að þar skuli vera grunnskóli.

Borg­ar­yf­ir­völd telja að vegna fá­menn­is í skólanum sé ekki hægt að halda úti þeim gæðum náms, kennslu og fé­lag­steng­inga sem æski­legt væri. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Reykja­vík­ur­borg er 61 nem­andi í Keldu­skóla – Korpu í 1.-7. bekk.

Í ályktun fundarins kemur fram að „breytingar á skólastarfi í norðanverðum Grafarvogi séu órökstuddar og illa ígrundaðar,“ auk þess að það sé með ólíkindum að horfur séu á því að meirihluti barna í norðanverðum Grafarvogi þurfi að færast á milli hverfa til þess að sækja lögbundna kennslu.

„Einnig áréttar fundurinn að meðan borgin sóar umtalsverðum fjármunum í ólögbundin gæluverkefni, séu ekki forsendur til frekari skerðinga og breytinga í lögbundnu skólastarfi en orðið er,“ segir einnig í ályktuninni.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er 61 nemandi í Kelduskóla – …
Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er 61 nemandi í Kelduskóla – Korpu í 1.-7. bekk. Ljósmynd/Ófeigur Lýðsson

Ályktun fundarins má lesa í heild sinni hér að neðan:

„Íbúafundur í Staðahverfi þann 10. apríl 2019 sem boðaður var af íbúum hverfisins hafnar tillögum um lokun Kelduskóla – Korpu sem kynntar hafa verið af starfsmönnum Reykjavíkurborgar. Grunnskóli er ekki matvöruverslun sem menn loka að vild eins og nefnt var af starfsmanni Reykjavíkurborgar á fundi með foreldrum fyrir nokkru.

Fundurinn krefst þess að Reykjavíkurborg starfi í samræmi við gildandi deiliskipulag Staðahverfis sem kveður á um grunnskóla í hverfinu.

Fundurinn hafnar vinnubrögðum varðandi samráðsferli þar sem samráðshópur er af stærstum hluta skipaður starfsfólki borgarinnar auk þess sem sá tími sem gefin er til vinnu hópsins er of skammur.

Fundurinn telur að breytingar á skólastarfi í norðanverðum Grafarvogi séu órökstuddar og illa ígrundaðar og með ólíkyndum [sic] að meirihluti barna í norðanverðum Grafarvogi þurfi að færast milli hverfa til að sækja lögbundna kennslu eins og horfur eru á nái breytingar fram að ganga.

Einnig áréttar fundurinn að meðan borgin sóar umtalsverðum fjármunum í ólögbundin gæluverkefni, séu ekki forsendur til frekari skerðinga og breytinga í lögbundnu skólastarfi en orðið er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert