Sumar stéttir aldrei tilkynnt peningaþvætti

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is//Hari

Fíkniefnaviðskipti eru stærsti og arðbærasti hluti skipulagðrar glæpastarfsemi. Þetta kom fram í máli Karls Steinars Valssonar, yfirlögregluþjóns á höfuðborgarsvæðinu, á hádegisfundi sem félag viðskipta- og hagfræðinga hélt og fjallaði um skipulagða brotastarfsemi á Íslandi frá hagrænu sjónarmiði.

„Ég tel að við höfum ekki náð viðunandi árangri gegn skipulögðum brotahópum. Þeim hefur fjölgað, þeir velta meiru og eru fleiri,“ sagði Karl Steinar.

Hann sagði að staðan væri sú að í Evrópu eru um 5.000 skipulagðir brotahópar sem eru þekktir og undir smásjá yfirvalda. Hér á landi eru slíkir hópar á bilinu 10 til 20.

„Bætt við“ mansali vegna gróðasjónarmiða

Hann benti á að þrátt fyrir að fíkniefnin væru grundvöllur skipulagðra glæpa væri meira en helmingur hópanna tengdur fleiri en einni brotastarfsemi. „Frá árinu 2014 hafa komið inn þættir sem voru ekki þekktir í þessari brotastarfsemi; smygl á fólki og mansal,“ sagði Karl Steinar. Hann bætti því við að brotahópar hefðu „bætt þessu við“ vegna gróðasjónarmiða.

„Þarna er um að ræða hreina viðbót við fyrri starfsemi. Glæpamennirnir vita allt um smygl og stækka við sig til að græða meira.“

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Hari

Þykir eðlilegt að vera með nokkrar milljónir í umslagi

Hann sagði helsta vandamál þeirra sem stunda skipulagða glæpastarfsemi, það er hvað á að gera við lausaféð, ekki vera jafn þekkt hér á landi. „Í íslenskum viðskiptum hefur ekki þótt tiltökumál að vera með mikið lausafé,“ sagði Karl Steinar og tók dæmi með því að nefna stéttir sem hafi aldrei tilkynnt peningaþvætti:

„Bílasalar og fasteignasalar hafa aldrei tilkynnt um peningaþvætti. Þetta segir svolítið til um að í þjóðarsálinni þykir eðlilegt að koma einfaldlega með nokkrar milljónir í umslagi og borga. Við þurfum að skoða hvað þykir eðlilegt. Þarna er hvati fyrir menn til að halda áfram,“ sagði Karl Steinar.

Yfirlögregluþjónninn hvatti alla til að lesa skýrslu um peningaþvætti og fjármögnum hryðjuverka og sagði að í grunninn snúist þetta allt saman um peninga. Viðmið sem gengið væri út frá í Evrópulöndum sé að umfang skipulagðrar brotastarfsemi sé 1-2% af landsframleiðslu. 1% af landsframleiðslu hér á landi í fyrra voru 28 milljarðar króna.

Öfug sönnunarbyrði í Bretlandi

Karl Steinar benti á að Ísland hefði ekki fengið háa einkunn þegar úttekt var gerð varðandi reglur og aðgerðir gegn peningaþvætti. Að hans mati geta eftirlitsstofnanir unnið betur saman og Karl Steinar telur að sýn og áherslur hafi ekki alltaf verið réttar.

„Bretar og Írar hafa öfuga sönnunarbyrði. Þar þurfa menn að sýna fram á hvernig þeir hafi auðgast og hefur sú leið fært ríkisvaldinu mikla fjármuni. Er það leiðin? Ég vil meina að við eigum að fara einhvern milliveg og einbeita okkur að því að ná peningunum,“ sagði Karl Steinar.

Karl Steinar í forgrunni og Guðmundur Ingi Þórodsson, formaður Afstöðu …
Karl Steinar í forgrunni og Guðmundur Ingi Þórodsson, formaður Afstöðu - félags fanga á Íslandi, fyrir aftan. mbl.is/Hari

Þurfum aukafjárveitingu til að finna peningana

Hann benti á að hingað til hefði mesta púðrið farið í að reyna að ná eiturlyfjunum en nú ætti að skipta um gír. „Það eiga að vera miklu fleiri sérfræðingar til að við náum peningunum og við þurfum að verja fjármunum til að ná árangri,“ sagði Karl Steinar en hann lofar árangri gegn auknu fjármagni:

„Við gætum náð í 400-500 milljónir í ríkissjóð ef við fengjum 100 milljóna aukafjárveitingu. Við munum fara fram á það. Við fengum aukafjárveitingu fyrir 65 milljónir fyrir þetta ár og höfum nú þegar kyrrsett eignir fyrir 70 milljónir.“

Karl Steinar sagðist vilja að frekar yrði unnið með brotamenn sem einstaklinga og að allir væru þeir ólíkir innbyrðis. Hann tók dæmi í samtali við blaðamann að loknum fundinum: 

„Við gætum verið tveir og framið svipuð brot en nálgunin til að fá þig til að hætta brotastarfsemi getur verið önnur en sú til að fá mig til að hætta. Það er vegna þess að við erum ólíkir og mismunandi leiðir virka á okkur,“ sagði Karl Steinar.

Hann sagði að það væri samfélaginu mikilvægt að fá einstaklinga til baka eftir fangavist sem byrji að borga til samfélagins og sé hluti af því. „Stefnan getur ekki verið að það sé nánast ómögulegt fyrir þá sem losna úr fangelsi að taka þátt í samfélaginu. Þá erum við ekki á réttri leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert