Andlát: Ágúst Þór Árnason

Ágúst Þór Árnason.
Ágúst Þór Árnason. Ljósmynd/Aðsend

Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, lést á heimili sínu í dag, 11. apríl, eftir snarpa baráttu við krabbamein. Hann fæddist í Reykjavík 26. maí 1954. Foreldrar hans voru Ólöf Þórarinsdóttir kennari við Langholtsskóla og Árni Jóhannsson verktaki.

Ágúst Þór stundaði nám í heimspeki, lögfræði og stjórnmálafræði í Berlín við Die Freie Univeristat, auk doktorsnáms sem enn var ólokið við Johan Wolfgan Goethe Universetat. Hans helstu áhugasvið innan fræðimennskunnar voru stjórnskipunarréttur, heimspekilegur grundvöllur mannréttinda, samanburðarstjórnskipunarréttur og heimskautaréttur.

Ágúst Þór Árnason var aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Akureyri …
Ágúst Þór Árnason var aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Akureyri frá árinu 2002 þar til hann fór í leyfi vegna veikinda snemma á þessu ári. mbl.is/Golli

Ágúst Þór starfaði m.a. sem framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands 1994-1998 og var framkvæmdastjóri Lögfræðiakademíu Reykjavíkur um tíma. Hann var fréttaritari Bylgjunnar í Berlín á árunum 1986-1989 og fréttaritari RÚV í Berlín á árunum 1989-1991 þar sem hann flutti meðal annars fréttir af falli Berlínarmúrsins. Ágúst Þór sinnti blaðamennsku á Tímanum 1993-1994. Hann starfaði við Háskólann á Akureyri frá árinu 2002 þar til hann fór í leyfi vegna veikinda snemma á þessu ári.

Eftir Ágúst Þór liggur fjöldinn allur af fræðigreinum, sem hann skrifaði einn og í samstarfi við aðra. Hann var einn af þeim sem stóðu að heimspekikaffi á Bláu könnunni.

Ágúst Þór eignaðist þrjú börn: Guðmund Árna, Brynjar og Elísabetu og barnabörnin eru sjö.  Sambýliskona hans var Margrét Elísabet Ólafsdóttir. 

mbl.is