Rannsaka andlát konu eftir afskipti lögreglu

Héraðssaksóknari rannsakar nú andlát konu á þrítugsaldri. Konan fór í …
Héraðssaksóknari rannsakar nú andlát konu á þrítugsaldri. Konan fór í hjartastopp eftir að hafa neytt eiturlyfja en lögregla hafi afskipti af henni nóttina sem hún lést. mbl.is/Eggert

Kona á þrítugsaldri lést aðfaranótt þriðjudags, stuttu eftir að lögregla hafði afskipti af henni. Málið er til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara. Greint var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem fram kom að konan, sem var fædd árið 1994, var í samkvæmi umrætt kvöld þar sem mikið var um eiturlyf.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir í samtali við mbl.is að andlát konunnar sé til rannsóknar hjá embættinu og að málið hafi komið inn á borð embættisins á þriðjudag. Rannsóknin er á frumstigi og því getur hann ekki tjáð sig um hana að öðru leyti.

Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að foreldrar konunnar eru ósáttir við meðferð lögreglu á dóttur þeirra. Þegar lögreglan var kölluð til í samkvæmið var konan í miklu ójafnvægi. Eftir að lögreglan hafði afskipti af henni fór hún í hjartastopp og hófust endurlífgunartilraunir. Konan var flutt á Landspítalann og lést þar á þriðjudagsmorgun. Foreldrar konunnar segja hana hafa verið í geðrofi vegna neyslu en að lögreglan hafi handjárnað hana og bundið á fótum. Slíkt eigi ekki að gera við fólk í neyslu, heldur sprauta niður. Grunur leikur á að konan hafi verið undir áhrifum kókaíns.

Ólafur Þór segir í samtali við mbl.is að mál af þessu tagi sem berist til embættisins séu sem betur fer fátíð, en að það sé byggt inn í löggjöfina að rannsaka mál þar sem fólk lætur lífið eða verður fyrir verulegum líkamsmeiðingum sem geta tengst störfum lögreglu. „Burtséð frá því hvort grunur er um refsivert athæfi eða ekki, þetta ber að kanna og rannsaka til hlítar og fá nákvæmar upplýsingar um hvað gerðist,“ segir Ólafur Þór.  

Í 35. grein lögreglulaga segir að héraðssaksóknara beri að rannsaka kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans. Hið sama á við ef eftirlitsnefnd telur þörf á að taka til rannsóknar atvik þegar maður lætur lífið, hann verður fyrir stórfelldu líkamstjóni eða lífi manns er hætta búin, í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið en að því hafi verið vísað til embættis héraðssaksóknara. 

„Hugur lögreglunnar er hjá aðstandendum konunnar og vill hún koma á framfæri innilegum samúðarkveðjum til þeirra á þessari erfiðu stundu,“ segir í tilkynningu lögreglunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert