Dómur MDE ekki orðinn endanlegur

mbl.is/Ófeigur

Hæstiréttur hafnaði í gær áfrýjunarbeiðni sem byggð var á því að einn af dómurunum sem fóru með málið fyrir Landsrétti hafi ekki verið rétt skipaður lögum samkvæmt. Áfrýjunarbeiðnin var ennfremur byggð á því að dómur Landsréttar hafi verið bersýnilega rangur. Hæstiréttur hafnaði hins vegar hvoru tveggja.

Með beiðninni var vísað til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 12. mars á þessu ári í svonefndu Landsréttarmáli þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið staðið rétt að skipun þriggja dómara af fimmtán við Landsrétt.

Hæstiréttur bendir á að rétturinn hafi þegar tekið afstöðu til hliðstæðra álitaefna í maí 2018 þar sem hafnað hafi verið ómerkingu dóms á sömu forsendum. Þá liggi fyrir að dómi Mannréttindadómstólsins sé ekki orðinn endanlegur og kunni að sæta endurskoðun.

„Mun Hæstiréttur ekki taka afstöðu til afleiðinga dómsins að landsrétti nema hann verði annaðhvort endanlegur eða niðurstaða hans látin standa óröskuð við endurskoðun en alls er óvíst hvenær það gæti orðið. Ótækt er vegna þessa álitaefnis eins út af fyrir sig að heimila í þessu sakamáli áfrýjun sem fyrirsjáanlega hefði þá afleiðingu að hér fyrir dómi  yrði að fresta því um ótiltekinn tíma án þess að nokkru verði nú slegið föstu um hvert vægi þessa álitaefnis kynni að verða,“ segir í ákvörðun Hæstaréttar og áfram:

„Kæmi á síðari stigum til þess að dómur Landsréttar í öðru máli yrði fyrir Hæstarétti ómerktur vegna atvika hliðstæðum þeim sem hér eru uppi gæti leyfisbeiðandi jafnframt eftir atvikum leitað endurupptöku málsins fyrir Landsrétti, sbr. 2. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu öllu gættu er hafnað beiðni um áfrýjunarleyfi í málinu.“

mbl.is