„Gríðarlegur“ kraftur í Berginu

Sigurþóra Bergsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Alfreðsdóttir og Svandís Svavarsdóttir, …
Sigurþóra Bergsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Alfreðsdóttir og Svandís Svavarsdóttir, með húfu Ólafs Stefánssonar, eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir úrræðið Bergið Headpace passa fullkomlega við áherslur ríkisstjórnarinnar um að setja börn og ungmenni í fyrsta sæti.

Ríkisstjórnin undirritaði á málþingi Geðhjálp­ar og Bergs­ins á Grand hót­eli viljayfirlýsingu um að koma að fjármögnun Bergsins og verða veittar sextíu milljónir til úrræðisins næstu tvö árin. Einnig er gert ráð fyrir að leitað verði eftir stuðningi meðal fyrirtækja og annarra aðila sem bera samfélagslega ábyrgð. „Tilraunaverkefnið fellur að áherslum stjórnvalda sem samhliða munu leggja aukna áherslu á forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtæka íhlutun í heildarendurskoðun í þjónustu við börn þvert á ráðuneyti“ segir í tilkynningu.

Ólafur Stefánsson á málþinginu.
Ólafur Stefánsson á málþinginu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn Ásmundar Einars hefur verið lögð áhersla á að auka samvinnu á milli ráðuneyta. Einnig hefur verið leita til að auka samvinnu þvert á kerfið þegar kemur að málefnum ungs fólks, til að leysa þær áskoranir sem þar eru.

„Sú vinna sem farið hefur af stað með þessu verkefni Headspace og sú reynsla sem er frá nágrannalöndunum hvað það snertir fellur akkúrat að þessum áherslum ríkisstjórnarinnar og ákalli samfélagsins um að við færum þjónustuna nær, vinnum þverfaglega og vinnum þvert á málaflokka. Ég er sannfærður um að það starf sem við erum hér að undirúa getur leitt okkur áfram í þessari hugsun og komið börnum og ungmennum til góða,“ segir Ásmundur Einar í samtali við mbl.is.

Ásmundur Einar Daðason kynnir ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
Ásmundur Einar Daðason kynnir ákvörðun ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann bendir á að stýrihópur hafi verið að störfum um málefni barna og niðurstaðan hafi verið sú að félags- og barnamálaráðuneytið kæmi með tíu milljónir inn í Bergið og hin ráðuneytin fimm milljónir hvert. „Það er til þess að undirstrika líka að þegar kemur að andlegri líðan og geðheilsu og stöðu ungs fólks og bara málefnum ungs fólks og barna almennt þá heyrir þetta aldrei beint undir eitt ráðuneyti. Þetta er samvinna og samstarf og við erum að sýna það hérna í verki og styðja við sömu hugsun og er grasrótarmegin í Headspace og inn í þennan gríðarlega kraft sem hefur verið í þessu starfi,“ segir hann og bætir við að Sigurþóra Bergsdóttir, einn af stofnendum Bergsins, eigi heiður skilinn fyrir vinnu sína.

Úrræðið, sem hefur verið í burðarliðnum um nokkurt skeið, hefur gengið undir nafninu Bergið Headspace og er stofnað af Sigurþóru og Dr. Sigrúnu Sigurðardóttir, lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri með stuðningi fleiri aðila.

Bergið Headspace er þverfaglegt móttöku- og stuðningsúrræði fyrir ungt fólk undir 25 ára sem býður upp á einstaklings- og áfallamiðaða þjónustu. Fyrirmyndir Headspace má finna í Ástralíu og Danmörku þar sem svipuð úrræði hafa gefið góða raun. Markmiðið er að auka og gera skilvirkari þjónustu við börn og ungmenni og reyna að tryggja að þau fái aðstoð sem fyrst.

Lögð er áhersla á að einfalda ferlið og skapa vettvang þar sem börn og ungmenni geta haft samband við aðila sem veitir stuðning og ráðgjöf út frá þörfum hvers og eins og beinir málum þeirra í réttan farveg. Þá verður sérstaklega horft til tæknilausna og fjarþjónustu.

mbl.is