RÚV sýknað af kröfum Steinars Bergs

Ríkisútvarpið áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu, sem snerist um …
Ríkisútvarpið áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu, sem snerist um ummæli Bubba Morthens um fyrrverandi útgefanda sinn, Steinar Berg Ísleifsson. mbl.is/Samsett mynd

Landsréttur hefur sýknað Ríkisútvarpið af kröfum Steinars Bergs Ísleifssonar, en Steinar Berg krafði RÚV um miskabætur og afsökunarbeiðni vegna endurvarps á ummælum tónlistarmannsins Bubba Morthens í þættinum Popp- og rokksaga Íslands.

Fram kemur í dómi Landsréttar að RÚV uni því þó að því sé óheimilt að sýna þáttinn þar sem Bubbi lét ummælin í garð Steinars Berg falla. Ríkisútvarpið þarf þó ekki að greiða Steinari miskabætur né birta dómsorð á vef sínum, ruv.is, eins og farið hafði verið fram á.

RÚV krafðist og fékk sýknu í málinu á þeim grundvelli að Bubbi Morthens hefði einn og sér verið ábyrgur fyrir þeim ummælum sem hann lét falla um Steinar Berg og þeirra viðskiptasamband á árum áður.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi þónokkur ummæli Bubba dauð og ómerk, meðal annars þau sem hann lét falla í 7. þætti þáttaraðarinnar Popp- og rokksaga Íslands. Þátturinn birtist á RÚV í mars 2016 og síðan endursýndi RÚV einnig þáttinn og gaf þáttaröðina út á DVD-diskum.

Bæði Bubbi og Ríkisútvarpið voru dæmd til að greiða Steinari Berg 250.000 kr. í miskabætur og samanlagt tvær milljónir í málskostnað í héraði, en með dómi Landsréttar falla niður greiðslukröfur á hendur RÚV.

Bubbi kaus að áfrýja málinu ekki, en Ríkisútvarpið ákvað hins vegar að gera það. Ummæli Bubba sem voru dæmd dauð og ómerkt voru ekki einungis birt í þættinum á RÚV, heldur einnig í viðtölum á mbl.is og á Vísi.is, auk skrifa á Facebook.

Í öllum tilfellum sakaði Bubbi Steinar Berg um að hafa sem útgefandi brotið á sér, er hann starfaði í hljómsveitunum Utangarðsmönnum og Egó á níunda áratugnum.

Útgef­and­inn hann mok­græddi á okk­ur, það er bara þannig,“ voru ummælin sem Bubbi setti fram í þættinum á RÚV og dæmd voru dauð og ómerk.

Í samtali við mbl.is eftir að dómur féll síðasta sumar sagði Steinar Berg að hann væri sérstaklega ánægður með að RÚV hefði líka verið dæmt.

„Ég er ánægður að RÚV skuli þurfa að biðjast op­in­ber­lega af­sök­un­ar á því að miðla þess­um ósóma til þjóðar­inn­ar,“ sagði Steinar Berg þá, en nú er ljóst að það þarf RÚV ekki að gera.

Dómur Landsréttar í málinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert