Skák eigi heima í menntakerfinu

Armenski stórmeistarinn og faðir skákkennslu í Armeníu, Smbat Lputian, segir …
Armenski stórmeistarinn og faðir skákkennslu í Armeníu, Smbat Lputian, segir að skák geri börn sanngjarnari, réttsýnni og þolinmæðari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skák undirbýr nemendur fyrir lífsins þrautir og er jafngild almennri menntun að sögn armenska stórmeistarans og föður skákkennslunnar í Armeníu, Smbats Lputians. Hann hefur, fyrir hönd skákkennslunefndar FIDE, lýst yfir áhuga á því að styðja við skákkennslu í grunnskólum á Íslandi.

Smbat var í forsvari fyrir innleiðingu skákar í menntakerfi Armeníu, þar sem skák hefur verið skyldufag í grunnskólum frá árinu 2011. Fjögur ár tók að koma á fót skákkennslu í hverjum einasta skóla í borgum, bæjum og afskekktum sveitum Armeníu en á Íslandi gæti ferlið tekið styttri tíma vegna smæðar þjóðarinnar að sögn Smbats. Nú vinnur hann að því að miðla reynslu Armena af verkefninu og talar fyrir því að skák verði innleidd í menntakerfi allra ríkja.

„Stundum spyr ég fyrrverandi atvinnuskákmenn hvort skákkunnátta þeirra hjálpi þeim í vinnunni og allir svara því játandi. Skákmenn nálgast verkefnin nefnilega með aðeins öðrum hætti en aðrir,“ sagði Smbat í samtali við Morgunblaðið á meðan umferð í Reykjavíkurskákmótinu stóð yfir í Hörpu.

Ávinningur skákkunnáttu er mjög mikill og skilar sér inn í samfélagið með jákvæðum afleiðingum að sögn Smbats en í því samhengi nefnir hann fyrst af öllu sanngirni og réttsýni.

Ábyrgð á mistökum

„Börn sem tefla frá unga aldri læra mjög snemma að vinna eða tapa á sanngjarnan hátt. Þau taka ábyrgð á mistökum sínum og geta ekki kennt neinum öðrum um að tapa. Þá þurfa þau að horfast í augu við að þau gerðu mistök og þurfa að standa sig betur í framtíðinni. Alls staðar í samfélaginu er mikilvægt að fólk taki ábyrgð á mistökum sínum,“ segir Smbat og bætir við að skák sé mikilvægur undirbúningur fyrir þátttöku í samfélaginu.

Í öðru lagi nefnir hann að ef börn byrja ung að tefla læri þau fljótt að leysa vandamál og taka ákvarðanir á sjálfstæðan hátt.

„Skák snýst um að leysa vandamál og hver leikur er ákvörðun. Í skák þurfa börn að leysa vandamál sín á sjálfstæðan hátt og taka eigin ákvarðanir og foreldrar eru ekki á staðnum til að segja þeim til,“ segir Smbat og leggur áherslu á að það sé góður undirbúningur fyrir lífið sjálft.

Í þriðja lagi þurfi skákmenn að greina aðstæður og rýna í stöðuna eftir hvern einasta leik. Þeir þurfi að finna rétta leið í skák og í lífinu sjálfu en einnig breytist staðan eftir hvern leik sem leikinn er á borðinu. Það reyni á aðlögunarhæfni, sem er fjórði ávinningur skákkennslu sem Smbat nefnir. Skák krefst gríðarlegrar einbeitingar og jafnframt sköpunargáfu, skjótrar hugsunar og þolinmæði, að sögn Smbats.

„Hvers vegna ganga börn í skóla, hvað er menntun? Öll þessi atriði og allur þessi ávinningur af skák telst til alvörumenntunar,“ segir Smbat.

Stemmi stigu við snjalltækjanotkun

Með tilkomu snjalltækja stendur menntakerfið frammi fyrir nýjum áskorunum að sögn Smbats. Stjórnvöld víða um heim standi frammi fyrir sameiginlegu vandamáli; einbeitingarskorti nemenda vegna snjalltækja.

Smbat sótti ráðstefnu í London á dögunum þar sem menntamálaráðherrar frá 120 löndum komu saman en þar var rætt um nýjar áskoranir í menntakerfinu vegna þessa.

„Nú er það risavandamál í skólum að börnin einbeita sér ekki. Á meðan staðan á skákborðinu er sífellt að breytast krefst skákin þess að iðkendur einbeiti sér. Þegar við teflum má ekkert áreiti vera – það má ekkert trufla einbeitinguna,“ segir Smbat að endingu.

Undirbúa rafræn kennslugögn

FIDE vinnur nú að undirbúningi á rafrænum kennslugagnagrunni fyrir skákkennara á heimsvísu en áætlaður undirbúningstími hans er 4 ár. Smbat segir mikilvægt að virkja kennara til að verða skákkennarar, í stað þess að gera þá að skákmönnum.

Þá mun skákkennslunefnd FIDE efna til ráðstefnu í maí og fjalla þar um skákkennslu í skólakerfinu. Smbat hefur framkvæmt ýmsar rannsóknir á skákkennslu í skólum þar sem ýmislegt áhugavert hefur komið fram.

Hyggst Smbat miðla reynslu sinni í málaflokknum á ráðstefnunni, þar sem forsetar fjölda skáksambanda og fulltrúar menntamálaráðuneyta koma saman, en forseti Skáksambands Íslands, Gunnar Björnsson, hyggst sækja ráðstefnuna ásamt fulltrúa menntamálaráðuneytisins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert