Varar við fordómum gegn geðfötluðum

Fyrirhugað er að íbúakjarni fyrir fatlaða rísi í Hagaseli.
Fyrirhugað er að íbúakjarni fyrir fatlaða rísi í Hagaseli. mbl.is/Hari

Mannréttinda- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar varar við fordómum gegn geðfötluðu fólki og segir það þrautseiga mýtu að fylgni sé á milli geðfötlunar og þess að beita ofbeldi.

Í bókun frá ráðinu kemur fram að tilefnið sé umræða og undirskriftalisti vegna fyrirætlana um byggingu búsetuúrræðis fyrir geðfatlað fólk í Hagaseli í Seljahverfi.

Ráðið fundað í gær þar sem umræða fór fram um réttindi fatlaðs fólks til sjálfstæðrar búsetu samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í bókuninni kemur fram að engin hætta stafi af geðfötluðu fólki og mikilvægt sé að ala ekki á slíkum fordómum. „Það virðist þrautseig mýta að fylgni sé milli geðfötlunar og þess að beita ofbeldi. Reynslan er hins vegar sú að geðfatlaðir eru líklegri til að vera þolendur ofbeldis en gerendur þess.“

Fram kemur að á fimmta hundrað fatlaðra einstaklinga búi í sambærilegum búsetuúrræðum víða um borgina. Á annað hundrað íbúðir verða byggðar á næstu tíu árum fyrir fatlað fólk.

„Fatlað fólk á rétt á sjálfstæðu lífi á eigin forsendum í samfélagi við fatlað og ófatlað fólk. Þann rétt stöndum við vörð um,“ segir í bókuninni.

Bókunin í heild sinni:

„Vegna umræðu um nýtt búsetuúrræði fyrir geðfatlað fólk í Hagaseli í Seljahverfi vill mannréttinda- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar ítreka skýlausan rétt fatlaðs fólks til sjálfstæðrar búsetu og sameinandi samfélags án aðgreiningar eins og fram kemur í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Ekki stafar sérstök hætta af geðfötluðu fólki og mikilvægt að ala ekki á slíkum fordómum. Það virðist þrautseig mýta að fylgni sé milli geðfötlunar og þess að beita ofbeldi. Reynslan er hins vegar sú að geðfatlaðir eru líklegri til að vera þolendur ofbeldis en gerendur þess.

Í dag býr á fimmta hundrað fatlaðra einstaklinga í sambærilegum búsetuúrræðum víðs vegar um borgina. Fyrirhuguð er mikil uppbygging fyrir fatlað fólk í Reykjavík, eða á annað hundrað íbúðir á næstu 10 árum og er þörfin fyrir lóðir í grónum hverfum því brýn.

Fatlað fólk á rétt á sjálfstæðu lífi á eigin forsendum í samfélagi við fatlað og ófatlað fólk. Þann rétt stöndum við vörð um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert