„Ekki nema 103 á undan mér“

Nokkur örtröð myndaðist þegar farþegar þurftu að sækja töskur sínar …
Nokkur örtröð myndaðist þegar farþegar þurftu að sækja töskur sínar af farangursbandi eftir að flugi hafði verið aflýst. Ljósmynd/Aðsend

„Ég sit á Keflavíkurflugvelli eftir að fluginu mínu var aflýst vegna veðurs í gærkvöldi og bíð eftir að ná að tala við þjónustufulltrúa Icelandair, ekki nema 103 manns á undan mér í röðinni eins og er.“

Svona lýsir Berglind Jónsdóttir aðstæðum á Keflavíkurflugvelli þessa stundina, en hún er meðal þúsunda farþega sem ætluðu að fara af landi brott í gær og svo aftur síðdegis í dag. Öllu flugi Icelandair var frestað í gærkvöldi vegna veðurs og sömu sögu er að segja um síðdegis- og kvöldflugin í dag.

103 voru á undan Berglindi í röðinni hjá þjónustufulltrúum Icelandair …
103 voru á undan Berglindi í röðinni hjá þjónustufulltrúum Icelandair rétt eftir hádegið. Um sólarhringur er síðan Berglind fór út á völl til að ná flugi Icelandair til New York. Hún situr hins vegar enn sem fastast í Keflavík þar sem flugum hefur verið aflýst vegna veðurs. Ljósmynd/Aðsend

Berglind segir í samtali við mbl.is að Icelandair hafi ekki staðið sig sem skyldi við að veita viðskiptavinum þjónustu sem sitja fastir eftir að flugum var aflýst í gær.  „Ég er þakklát að öryggið sé í fyrirrúmi en nú fer að verða kominn sólarhringur síðan við mættum hingað í gær og það síðasta sem við fengum að heyra voru skilaboð send klukkan 22 í gærkvöldi þar sem stóð að allir yrðu færðir á annað flug og flugfélagið myndi hafa samband varðandi nýtt flug,“ segir Berglind, sem átti bókað flug til New York ásamt kærasta sínum í gær.

Farþegar ekki látnir vita af nýjum flugum

Icelandair bætti við flugi til New York í hádeginu í dag, til JFK-flugvallar, og ákvað parið að gista á hóteli í Keflavík í nótt til að vera sem næst flugvellinum ef þau kæmust í flug. Það varð hins vegar ekki raunin í hádeginu því þar sem parið átti bókað flug til Newark-flugvallar komust þau ekki með í flugið þar sem um annan flugvöll var að ræða. Þá segir Berglind að hún hafi heyrt af því að farþegar sem áttu að fá sæti með flugum í hádeginu hefðu svo ekki mætt þar sem þeir voru ekki látnir vita.

Farþegum hefur verið bent á að leita upplýsinga á heimasíðu Icelandair eða með því að hringja en hvorugt hefur skilað árangri. „Eina ástæðan fyrir því að við vitum að öllu flugi seinni partinn hefur verið aflýst er vegna þess að það var birt á vefsíðu Isavia i morgun, Icelandair hefur ekki haft samband við okkur eða neinn annan sem við höfum hitt hér á vellinum,“ segir Berglind. Hún segir það ekki ásættanlegt að eina flugfélagið á Íslandi komi fram við viðskiptavini sína með þessum hætti. „Það er algjört lágmark að senda okkur skilaboð að við munum ekki geta flogið í dag heldur.“

Grátur og uppköst

Berglind bíður nú eftir því að komast að hjá þjónustufulltrúa Icelandair á Keflavíkurflugvelli, en þegar blaðamaður ræddi við hana voru 103 á undan henni. „Þetta er enginn hryllingur fyrir okkur, við vonandi náum að færa ferðina þar til seinna,“ segir hún og bætir við að ástandið á vellinum hafi verið mun óreiðukenndara í gær. „Það voru margir með börn og þurftu að finna gistingu seint, einhver börn köstuðu upp á gólfið og þá varð smá kaos. Við gengum líka framhjá hágrátandi konu, fólk er í alls konar aðstæðum auðvitað. En upplýsingaskorturinn er ekki í lagi.“  

Ekki hefur náðst í Ásdísi Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, eftir hádegi, en hún sagði í samtali við mbl.is í morgun að verið væri að vinna í því að hafa samband við alla farþegar vél­anna á næstu klukku­tím­um og unnið að því að finna lausn­ir.

Frá Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi.
Frá Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert