Engin rök sem halda vatni

Bæklunarskurðlæknirinn Hjálmar Þorsteinsson bæklunarskurðlæknir skilur ekki rök heilbrigðisráðherra og segir …
Bæklunarskurðlæknirinn Hjálmar Þorsteinsson bæklunarskurðlæknir skilur ekki rök heilbrigðisráðherra og segir fáránleikann fullkomnaðan með því að senda sjúklinga sem ekki geta beðið lengur á einkastofnun í Svíþjóð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bæklunarlæknirinn Hjálmar Þorsteinsson tekur vel á móti blaðamanni og sýnir honum fullkomna aðstöðu Klíníkurinnar til skurðaðgerða og legudeild sem líkist hóteli og er reyndar hluti af Hótel Íslandi, og aðstöðu til sjúkraþjálfunar. Við setjumst inn á skrifstofu og ræðum mál sem liggja honum á hjarta; þá staðreynd að fólk þarf að bíða mánuðum og árum saman eftir liðskiptaaðgerð á spítölum landsins. Aðgerð sem hægt er að gera án tafar á Klíníkinni og þar með létta fólki lífið og létta á biðlistum landsins.

200 aðgerðir á Klíníkinni

„Árið 2016 er farið að gera aðgerðir sem eru í takt við það sem við þurfum að vera að gera og ef við skoðum Akureyri, Akranes og LSH, það sem var gert á þeim tíma var bara að halda vatni. Það sem gerði það að verkum að hluti af biðlistunum styttist var að hluti fólksins fór út og svo er Klíníkin búin að gera um 200 liðskiptaaðgerðir hér í húsinu frá því að fyrsta aðgerðin var gerð hér í byrjun febrúar 2017. Þessar aðgerðir hafa sjúklingarnir greitt fyrir algjörlega sjálfir og það munar nú um minni fjölda í því átaki að stytta biðlista,“ segir hann.

Hjálmar segir vandamálið ekki liggja í aðgengi að læknum. „Það er í raun aðgengi að skurðstofu og legurými sem hefur valdið þessum biðlistum. Ef við skoðum Landspítalann þá er þar verulegur vandi vegna aðstöðu og það er ekkert að fara að breytast næstu 4-5 árin.“

Á Klíníkinni eru gerðar ýmsar aðgerðir sem Sjúkratryggingar Íslands borga en liðskiptaaðgerðir eru ekki þar á blaði.
„Við erum með samning við Sjúkratryggingar Íslands alveg eins og allar aðrar læknastofur. En allar aðgerðir sem krefjast innlagnar eftir aðgerð eru ekki til samningar um fyrir utan sjúkrahúsin. Við erum í raun fyrsta læknastofan sem hefur samþykki fyrir legudeild og er það okkar sérstaða.“

Enn bíða þúsund manns á biðlistum eftir liðskiptaaðgerðum hér á …
Enn bíða þúsund manns á biðlistum eftir liðskiptaaðgerðum hér á landi. Hér má sjá lækna í Svíþjóð skera upp íslenska konu sem endaði í Halmstad í aðgerð því biðin reyndist henni ofviða. mbl.is/Ásdís

Klár mismunun

„Það að setja 90 daga regluna er í raun gert til að vernda þegna landsins,“ segir Hjálmar. „Við eigum að vernda þá sem mega sín minnst. Ef reglan er þannig að þú getir ekki nýtt hana öðruvísi en að flýja land er það þannig að gamla fólkið og fólk sem er með aðra grunnsjúkdóma en sína slitgigt, eins og sykursýki og hjartasjúkdóma, getur ekki nýtt sér það úrræði að fara út.“
Það er þá í raun verið að mismuna sjúklingum?
„Algjörlega, það er algjörlega á hreinu.“

Aldrei heyrt nein rök

Nú sýnist manni það vera öllum í hag ef samið væri við ykkur um þessar aðgerðir, þó ekki væri nema tímabundið. Hver eru rök heilbrigðisráðherra að vilja ekki semja við ykkur?
„Ég hef aldrei heyrt nein rök sem halda vatni. Bara ekki. Klíníkin hefur ekkert að gera með þau réttindi sjúklinga sem Alþingi skapaði. Það er okkur sem þjóð óásættanlegt að fara þannig með almannafé að við veljum lausn sem er dýrari og skapar notandanum, þ.e. sjúklingnum, augljóst óhagræði. Átaksverkefni síðustu þriggja ára hefur ekki skilað því sem lagt var upp með, þ.e. að útrýma biðlista í liðskiptaaðgerð. Það var markmið átaksverkefnisins. Það er ríkinu dýrt að láta þennan sjúklingahóp bíða, en oftast er það sjúklingnum sjálfum dýrast í formi skertra lífsgæða sem á stundum sjúklingurinn nær ekki að vinna tilbaka nema að hluta eftir aðgerðina,“ segir hann.
„Það eru rannsóknir sem sýna tengsl á milli óeðlilega langs biðtíma og lélegri árangurs aðgerðar. Það er því flestum ljóst að tímabundinn samningur um þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar væri heillaskref fyrir þennan sjúklingahóp þannig að upphaflegu markmiði átaksverkefnisins mætti ná innan fyrirsjáanlegrar framtíðar. Samningur yrði síðan óvirkur ef biðtími opinberu sjúkrahúsanna væri orðinn ásættanlegur. Við verðum að temja okkur þá hugsun að hagsmunir sjúklingsins komi fyrst,“ segir Hjálmar.

Litið á mig sem vandræðagepil

„Ég hefði aldrei trúað því þegar ég ákvað að flytja heim að hlutirnir myndu vera svona, og kannski er maður bara svo barnalegur, en ég hélt í alvörunni að ég væri að koma heim til að hjálpa til. En í staðinn er litið á mann sem vandræðagepil fyrir að vera að hrista upp í kerfinu,“ segir hann.
„Það er ekki létt að sitja fyrir framan fólk sem er gjörsamlega örvilnað í sinni stöðu og hefur ekki möguleikann á að fara út og er að reyna að skrapa saman pening til að geta komið hingað í aðgerð af því það getur ekki beðið lengur. Þetta er fólk sem búið er að borga sína skatta og vinna hörðum höndum og ríkið getur ekki gert neitt. Ég held að fæstir skilji hvað við erum að senda fólk út í,“ segir hann.

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 




Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert