Ósáttur við kerfið

Sigurður Sigmannsson er afar ósáttur við að fá ekki endurgreiddan …
Sigurður Sigmannsson er afar ósáttur við að fá ekki endurgreiddan reikning sinn en hann endaði á að fara á Klíníkina í hnéaðgerð eftir að læknar í Svíþjóð treystu honum ekki í ferðalagið. mbl.is/Ásdís

Í tvö ár var hinn 71 árs Sigurður Sigmannsson með stigversnandi verki í hné. Undir það síðasta gat hann varla stigið í fótinn og gekk sárkvalinn við hækjur. Hann er einn af mörgum Íslendingum sem lendir á löngum biðlistum; fyrst eftir viðtali við lækni og svo eftir aðgerð. Á meðan var líf hans í biðstöðu, lífsgæðin minnkuðu, hann þurfti að hætta að vinna og hinn stöðugi verkur minnti sífellt á sig. Sigurður gafst að lokum upp á biðinni og borgaði sjálfur aðgerð á Klíníkinni; aðgerð sem hann vill fá endurgreidda. Hann tekur fram að þetta snúist fremur um réttlæti en peningaupphæðina.

Bein í bein

Saga hans er líklega svipuð sögum margra annarra. Árið 2016 fór Sigurður að finna til í hægra hné og fór hann í aðgerð í Orkuhúsinu í október 2017 en þá var gerð tilraun til að bjarga hnénu.

„Það mistókst og var þá talað um að þyrfti að skipta um helming af hnénu. Svo beið ég og beið því ég fékk ekki tíma hjá lækni fyrr en í september 2018. Og það var bara tími í viðtal á Landspítalanum,“ segir Sigurður sem beið því í tæpt ár eftir þessu viðtali.

Á meðan versnaði hnéð og líðanin til muna. „Í viðtalinu hjá lækni á Landspítalanum var mér sagt að það þýddi ekkert að setja hálft hné heldur þyrfti að setja upp heilt því þetta var orðið svo slæmt. Þetta hafði verið bein í bein í neðri hluta hnésins en á þessu ári sem ég beið var þetta orðið bein í bein á efri hlutanum líka. Það var allt brjósk horfið þegar ég loks fékk viðtalið og myndatökuna,“ segir Sigurður sem segist hafa upplifað mikla verki og mjög skert lífsgæði.

„Mitt áhugamál er golf en ég hef ekki getað spilað golf í tvö ár. Ég var kominn á tvær hækjur. Þarna var mér sagt að ég þyrfti að bíða í hálft ár í viðbót eftir aðgerð. En af því að lögin eru þannig að ef fólk þarf að bíða í meira en þrjá mánuði þá má sækja um að fara erlendis, ákvað ég að gera það.“

Langa biðin og blóðtappi

„Þetta var langt ferli; frá því að ég sótti um og þar til að ég átti að fara út. Í ágúst fékk ég blóðtappa í hnésbótina út af þessari bið. Hnéð hafði bólgnað svo mikið og ég var með mikinn bjúg. Ég var settur á blóðþynningu vegna blóðtappans. Áður þurfti ég að fara hálfsmánaðarlega að láta tappa vökva af hnénu en eftir að ég var settur á blóðþynningu var það ekki hægt. Mér var að vísu ekki sagt það, fór til læknis sem tappaði af og þá fór að blæða inn á liðinn. Ekki var það til að bæta hlutina.“

Sigurður fékk blóðtappa í hné á meðan hann beið eftir …
Sigurður fékk blóðtappa í hné á meðan hann beið eftir aðgerð. mbl.is/Ásdís

Ekki treyst í heimferð

„Ég fékk svo leyfi til að fara út og pantaði flugmiða sjálfur, beiðni var komin frá Sjúkratryggingum Íslands og mér var útvegað hótel rétt hjá spítalanum í Stokkhólmi. Beiðnin var komin út og ég átti bara eftir að ná í dagpeninga fyrir mig og konu mína, en hún átti að koma með sem aðstoðarmaður. Fjórum dögum fyrir fyrirhugaða aðgerð fékk ég tölvupóst frá sjúkrahúsinu úti þar sem þeir segjast ekki treysta mér til að fara í aðgerð vegna þess að ég væri á blóðþynningu, með of háan blóðþrýsting og fleira var ekki í lagi sem virtist vera bein afleiðing mikillar biðar. Þeir vildu ekki taka ábyrgð á aðgerðinni,“ segir Sigurður sem var að vonum svekktur.

Spítalinn í Stokkhólmi bauð honum að koma í mars, fjórum mánuðum síðar. Í huga Sigurðar var óhugsandi að bíða degi lengur.

Finnst þetta óréttlátt

 „Þá sendi ég tölvupóst upp á Landspítala og ég fékk aldrei svar. Ég hringdi og fékk heldur ekki svar,“ segir hann og segist hafa hreinlega gefist upp. Hann ákvað þá að leggja út fyrir þessu sjálfur og þiggja aðgerð hjá Klíníkinni.

„Ég hafði þá samband aftur inn í Klíníkina til að fá ráð hvað ég gæti gert því þetta var orðið það slæmt að ég gat ekki beðið lengur. Hjálmar bauðst til þess að gera þetta sjálfur og við hjónin tókum ákvörðun að það væri best,“ segir Sigurður sem fékk að komast strax að í aðgerð og fór í hana þann 10. desember 2019.

Sparaði ríkinu mikið fé

Sigurður sendi bréf til SÍ þann 13. desember, þremur dögum eftir aðgerð, og skrifar: „Nú hef ég loksins farið í þessa blessuðu hnéaðgerð eftir langa og erfiða bið. Aðgerðin gekk vel og lítur þetta vel út að sögn lækna. Þessi bið hefur kostað mig miklar kvalir og tekið frá mér mikil lífsgæði í nær tvö ár; vinnuna, áhugamálin og ýmislegt annað. En nú þar sem þetta er búið, vonandi, hef ég aðeins eina bón til þín, eða þar sem þú segir í bréfi þínu: „Ef það er eitthvað frekar sem við getum aðstoðað þig með þá hefur þú samband“. Þar sem ég hef nú sparað ríkinu töluvert marga 100 þúsund kalla og þar sem ég hafði rétt á og hafði alla pappíra í höndunum til að fara til Stokkhólms í aðgerð, finnst mér ekkert athugavert við og tel reyndar sjálfsagt (sjálfsögð mannréttindi) að ég fái endurgreiddan reikninginn frá Klíníkinni upp á kr. 1.200.000, sem er líklega helmingi lægri eða rúmlega það, en sá reikningur sem hefði orðið til við Svíþjóðarferð og jafnvel lægri en reikningurinn hefði orðið á Landspítalanum. Ég er nú hættur að vinna (sem ég ætlaði alls ekki að gera strax, en varð), orðinn ellilífeyrisþegi og hef greitt mína skatta og skyldur frá ca. 14-15 ára aldri samviskusamlega, þá finnst mér það ansi hart að þurfa að borga fyrir heilbrigðisþjónustu sem er svo til lífsnauðsynleg.“

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert