Betur fór en á horfðist í Borgarbyggð

Eftir sinueld. Myndin er úr safni.
Eftir sinueld. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Ómar Már Jónsson

Betur fór en á horfðist á Mýrum í Borgarbyggð þegar þar blossaði upp sinueldur síðdegis í dag. Búið er að slökkva eldinn og tók slökkvistarf u.þ.b. fjórar klukkustundir frá því Brunavarnir Borgarbyggðar voru kallaðar út. 

„Við erum búnir að ná utan um þetta og drepa þetta,“ segir Bjarni Þorsteinsson slökkviliðsstjóri. Spurður hvort hætta sé á að eldurinn blossi upp aftur kveður hann nei við og segir að vel verði fylgst með svæðinu í framhaldinu.

Aðspurður segir Bjarni að „töluvert“ svæði hafi orðið eldi að bráð. „Ég þori ekki að slá á það, en þetta er töluverður blettur,“ segir hann, en ekki er vitað hver eldsupptök voru. Annast lögregla rannsókn málsins. „Hefðum við ekki stoppað þetta hefði þetta farið alla leið vestur að Langá. Þar er mikið kjarrlendi og birkiskógur, en sem betur fer tókst að stoppa þetta,“ segir Bjarni. 

Fólk fari mjög varlega með opinn eld á þessum árstíma

Milli 30 og 40 manns komu að aðgerðunum, þ.á m. liðsmenn björgunarsveita. „Það sem gildir í svona er að hafa sem mestan mannskap,“ segir Bjarni. Notast var við svonefndar klöppur, eins konar blævængi með skafti, til þess að ráða niðurlögum eldsins. 

„Þetta er erfitt við að eiga; þar sem er hrís og lyng. Þetta er eins og að lemja ofan á gorma. Það er best að koma vatni ofan frá úr þyrlu,“ segir hann, en kallað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar og var þyrla í viðbragðsstöðu með slökkvifötu.

„Við þorðum ekki annað en að setja þá í viðbragðsstöðu ef ske kynni að allt færi á versta veg. Sem betur fer náðum við að stýra þessu svolítið þannig að það var afturkallað,“ segir Bjarni sem áréttar að fólk fari mjög varlega með opinn eld nú á þessum árstíma þegar vora tekur. 

„Fólk þarf að halda vöku sinni og vera á tánum. Ekki bara hér heldur fyrir austan fjall og í sumarbústaðabyggðum. Fólk þarf að vera á varðbergi og láta sig það varða hvað náunginn er að gera,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert