„Ég er eiginlega síðasti móhíkaninn“

Snorri Rafnsson á leið í miknaveiðiferð út á Breiðafirði.
Snorri Rafnsson á leið í miknaveiðiferð út á Breiðafirði. Ljósmynd/Aðsend

„Við þurfum að vernda náttúruna fyrir minknum. Við hleyptum honum inn í landið og við verðum að taka ábyrgð á þessu. Ástandið er orðið slæmt. Það sem er að gerast hægt og rólega er að fuglategundir eru að eyðast upp. Við erum að setja þær í hættu,“ segir Snorri Rafnsson minkaveiðimaður um áhrif minksins í íslenskri náttúru. 

Minkur er framandi og ágeng tegund á Íslandi og hefur valdið skaða á lífríki landsins. Hann heldur sig helst við ár og vötn og étur fiska, fugla og egg þeirra auk hagamúsa og hryggleysingja. Hann var fyrst fluttur til landsins árið 1931 til að nota í feldiðnað en fljótlega slapp hann út í náttúruna. Minkurinn hefur verið veiddur nánast upp frá því fyrir. Hann hefur mikla aðlögunarhæfni og er ákaflega frjósamur. Minkurinn er veiddur í gildrur, með hundum og skotinn af veiðimönnum.

Áhrif minksins augljós

Snorri sem einnig er þekktur sem  Vargurinn á samfélagsmiðlum hefur helgað sig veiði á minknum síðustu ár. Hann segist sjá sjáanleg merki um skaða minksins í íslenskri náttúru og nefnir friðun teistunnar sem dæmi. Hann bendir á að þrátt fyrir að veiðimenn hafi veitt teistuna í fleiri hundruð ár sér til matar hafi minkurinn höggvið stórt skarð í teistustofninn því hún verpir í holum þar sem minkurinn helgar sig. Teista er grunnsævisfugl og verp­ir í kletta­gjót­um, urðum og sprung­um og var friðuð fyrir skotveiði 1. september 2017.   

„Flórgoðinn er líka í hættu og hefur verið lengi. Við erum líka hætt að sjá keldusvínið. Sumir silungsstofnar í ám og lækjum sjást ekki lengur þar sem hann var veiddi á árum áður. „Þetta er allt minknum að kenna. Þetta þurrkast allt upp,“ segir Snorri.

Minkaveiðihundarnir eru duglegir.
Minkaveiðihundarnir eru duglegir. Ljósmynd/Aðsend

Eigum að verðmeta út frá íslenskri náttúru

Snorri var á leið í Helgafellseyjar að veiða mink þegar mbl.is náði tali af honum. Á þessum tíma eru fuglar að koma sér fyrir á eyjunum, hreiðra um sig, finna sér maka og verpa. „Núna hanga kollurnar fyrir utan eyjarnar því þær þora ekki útaf minknum sem hefur hertekið eyjarnar. Við sjáum það bara á hegðun fuglsins,“ segir Snorri og bætir við: „Einn minkur í svona eyju getur valdið gríðarlegu tjóni. Ein eyja getur til dæmis gefið fleiri þúsundir krónur í tekjum af æðardúni. En við eigum ekki að verðmeta þetta út frá krónum heldur íslenskri náttúru; fuglunum okkar en ekki út frá ameríska minknum.“ 

„Ástríðan mín að losa náttúruna við minkinn“

Óhætt er að segja að Snorri sé náttúrubarn af guðsnáð. Hann hefur meðal annars stundað minkaveiðar um árabil og notar flinka minkahunda sér til aðstoðar. „Ég er eiginlega síðasti móhíkaninn í þessu. Þetta er ástríðan mín að losa náttúruna við minkinn. Ég geri ekkert betra. Það er samt voðalega sárt að fá ekki almennilega borgað fyrir það,“ segir Snorri.

Sveitarfélög og ríki greiða fyrir minkaveiðar en sveitarfélögum er í sjálfsvald sett hvað þau verja miklum fjármunum til þeirra. Snorri bendir á að launin sem hann fær greidd fyrir veiðarnar séu alltof lág. Samkvæmt viðmiðunartaxtar og verðlaunum fyrir refi og minka á vef Umhverfisstofnunar segir að verðlaun fyrir unninn mink er kr. 3.000 á dýr. Verðlaun fyrir hvolpafulla læðu kr. 15.000 á dýr, tímakaup ráðinna veiðimanna kr. 1.615 kr./klst og akstur 110 kr/km.

Að sögn Snorra eru þetta sömu upphæðir og voru árið 1993. Á þessum 26 árum hefur orðið um 200% hækkun á launum í landinu en laun fyrir þessa vinnu hafa haldist óbreytt, að sögn Snorra.

Gekk betur þegar betur var borgað

 „Í gamla daga var tekið vel á þessu því það var ágætlega borgað fyrir þetta. Fleiri veiðimenn tóku þátt í því að reyna að losa okkur við minkinn og meira var veitt af honum,“ segir Snorri og bendir á að starfið standi ekki undir kostnaði. Veiðarnar eru kostnaðarsamar því þær útheimta talsverðan búnað. Kostnaðurinn felur meðal annars í sér hundahald og það er heilmikil vinna að sinna vinnusömum minkahundi ef vel á að vera. 

Hundur Snorra með mink eftir góða veiði á dögunum.
Hundur Snorra með mink eftir góða veiði á dögunum. Ljósmynd/Aðsend

Snorri vill að ríkið sjái alfarið um að greiða fyrir minkaveiðarnar því ábyrgðin liggur hjá þjóðinni en ekki einstaka sveitarfélögum. Hann kallar eftir launum í samræmi við vinnuframlag. Hann segir að ef kerfinu yrði breytt þá væri til dæmis auðveldara að fá yfirsýn yfir stöðuna. 

Helsta minkaveiðitímabilið er núna í apríl og maí en minkurinn er samt veiddur allt árið. Snorri segir minkastofninn sveiflast milli ára en sé núna á uppleið. Hver minkalæða er farin að gjóta núna 7-8 hvolpum og því sé lag að reyna að ná höggva skarð í stofninn.

Hægt er að fylgjast með Varginum á samskiptamiðlunum snapchat undir heitinu Vargurinn og á instagram undir thewestviking

Hægt er að fylgjast með Snorra á Snapchat, undir nafninu …
Hægt er að fylgjast með Snorra á Snapchat, undir nafninu Vargurinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert