Flug á áætlun í dag og á morgun

Vegna hvassviðris var landgöngum lokað á Keflavíkurflugvelli um helgina. Á …
Vegna hvassviðris var landgöngum lokað á Keflavíkurflugvelli um helgina. Á þriðjudaginn má búast við að það endurtaki sig. mbl.is/Árni Sæberg

Útlit er fyrir að ekki lægi mikið um sinn og að búast megi við suðaustanátt upp á 8-15 metra á sekúndu í kvöld og á morgun. Flugsamgöngur ættu að líkindum að vera ótruflaðar. Aðfaranótt þriðjudags bætir hins vegar verulega í vindinn og á þriðjudagsmorgun og -hádegi má búast við hvassviðri eða stormi.

Veðurfræðingur á veðurstofu segir að líkur séu til þess að vindurinn fari yfir 50 hnútana um hádegi á þriðjudaginn, þannig að loka verði landgöngunum á flugvellinum, eins og þurfti að gera í gær. Þá má búast við röskun á flugi.

Á austanverðu landinu verður rólegri vindur á þriðjudaginn, á sama tíma og búist er við hvassviðri eða stormi á vestanverðu landinu.

Vandræði á flugvellinum

Starfsfólk Icelandair stóð í ströngu um helgina við að glíma við eftirköst aflýstra fluga. Samkvæmt upplýsingafulltrúa þeirra var lausn fundin á vandræðum 3.000 manns og enn er unnið að því að leysa mál hundraða viðskiptavina, sem þurfa að komast úr landi. Héðan í frá, að minnsta kosti í kvöld og á morgun, eru flug Icelandair á áætlun.

Til marks um neyðina flýtti Icelandair leigu á nýrri leiguvél, af gerðinni Boeing 767 sem er 260 sæta, og tók hana í gagnið í morgun, í stað þess að gera það eftir nokkrar vikur. Hún flýgur núna síðdegis með erlendri áhöfn, sem fylgdi með frá leigusalanum. „Dæmi þess að við gerum allt sem við getum til að bjarga þessu,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert