Slóð elskhuga gefi ekkert nýtt til kynna

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Geirfinnsmálið verður í sama farvegi og áður nema nýjar upplýsingar komi fram sem réttlæti að málið verði tekið upp. Þetta segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. 

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins kom fram í viðtali við þýska blaða- og kvikmyndagerðarmanninn Boris Quatram, að hann telji rétt að tiltekinn angi málsins verði kannaður nánar. N.t.t. að rætt verði við mann sem sagður er hafa haldið við eiginkonu Geirfinns á þeim tíma er sá síðarnefndi hvarf. Ólafur Helgi segir viðtalið ekki gefa neitt nýtt til kynna.

Í heimildamynd eftir Quatram sem sýnd verður í sjónvarpi Símans Premium eftir helgi er rætt við manninn sem ekki kemur fram í mynd, en hann fluttist af landi brott árið 1976. Quatram hafði uppi á manninum í Þýskalandi.

Þýski blaða- og kvikmyndagerðarmaðurinn Boris Quatram.
Þýski blaða- og kvikmyndagerðarmaðurinn Boris Quatram. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Fram kom í viðtali mbl.is í dag við Hauk Guðmundsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumann, sem rannsakaði málið á sínum tíma, að skýrsla hefði verið tekin af „drengnum“ og að hann hafi ekki verið talinn tengjast málinu með neinum hætti. Sagðist hann ekki trúa því að lykillinn að lausn málsins lægi í þessum þræði.

Nýjar upplýsingar forsenda þess að málið verði tekið upp

Spurður hvort lögregla sjái ástæðu til að ræða við manninn í ljósi þess sem fram kom í viðtalinu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins segir Ólafur Helgi að erfitt sé að álykta með þeim hætti. „Það er ósköp erfitt að segja það. Í þessu viðtali kemur ekkert fram um það hvers vegna það ætti að tala við manninn,“ segir Ólafur Helgi, sem kveðst þó ekki hafa séð heimildamyndina.

Geirfinnur Einarsson.
Geirfinnur Einarsson.

„Ég veit ekkert nema það sem stendur í Morgunblaðinu og það sem stendur í Morgunblaðinu gefur ekkert nýtt til kynna. Meðan það gefur ekki neitt nýtt til kynna, þá er málið í sama farvegi og áður. Geirfinnur hefur ekki fundist, Hæstiréttur hefur nýlega sýknað þá sem voru dæmdir í málinu á sínum tíma og ég skil vel að menn hafi áhuga á málinu,“ segir hann.

„Á þessu augnabliki get ég ekki dregið neinar sérstakar ályktanir. Komi fram nýjar staðreyndir í málinu sem réttlæta það að málið verði tekið upp með einhverjum hætti, þá verða þær að sjálfsögðu íhugaðar mjög vandlega,“ segir Ólafur Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert