Ásættanlegt að ná yfir 20% þátttöku

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

Atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna VR um lífskjarasamninginn sem var undirritaður á dögunum lauk í hádeginu í dag.

Á kjörskrá um samning VR og Samtaka atvinnulífsins voru 34.070 og greiddu 7.104 atkvæði, eða 20,85%. Á kjörskrá um samning VR og Félags atvinnurekenda voru 1.699 og greiddi 451 atkvæði, eða 26,55%.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir kosningaþátttökuna ívið meiri en hún hefur verið. „Þetta er mjög ásættanleg niðurstaða. Það er stígandi í þátttöku innan félagsins. Auðvitað breytum við ekki yfir nótt hvernig þátttakan er en hún hefur verið að stigmagnast.“ Hann bætir við að oft sé erfitt að spá fyrir um kosningaþátttöku þegar kosið er um kjarasamninga. Fer það meðal annars eftir því hvort þeir séu umdeildir eða ekki.

Að sögn Ragnars Þórs er það afar ásættanlegt að ná yfir 20% þátttöku þegar um stórt félag eins og VR er að ræða. „En við viljum alltaf gera betur og stefnan er að fá meiri virkni í þátttöku félagsmanna í svona kosningum.“

Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar verða birtar samhliða niðurstöðum hjá öðrum stéttarfélögum fyrir hádegi 24. apríl. Spurður hvort hann sé vongóður um að samningurinn verði samþykktur segir hann að farið verði eftir þeirri niðurstöðu sem félagsmenn óska eftir. „En mér finnst á þátttökunni vera meiri líkur en minni á að þetta verði samþykkt.“

mbl.is