Fá ekki flugbætur vegna maura

AFP

Samgöngustofa hefur úrskurðað að flugfélaginu WOW air hafi ekki borið að greiða farþegum bætur vegna seinkunar sem varð á flugi frá Íslandi til borgarinnar Montreal í Kanada og síðan aftur frá borginni í mars á síðasta ári.

Seinkunin kom til vegna þess að maurar fundust um borð í farþegaþotunni á leiðinni til Montreal. Tilkynnti áhöfnin kanadískum yfirvöldum um maurana eftir að hafa orðið vör við þá. Yfirtóku yfirvöld þotuna í kjölfarið í 22 klukkustundir.

Fyrir vikið varð seinkun bæði á því að farþegar frá Íslandi kæmust frá borði og á því að farþegar á leið til Íslands kæmust um borð í farþegaþotuna. Kemst Samgöngustofa að þeirri niðurstöðu að um óviðráðanlegar aðstæður hafi verið að ræða.

Úrskurði Samgöngustofu má lesa hér og hér.

Ríkisútvarpið sagði fyrst frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert