Hraðinn of mikill og hemlagetan of lítil

mbl.is/Eggert

Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að hópbifreið, sem ekið var aftan á fólksbifreið á Suðurlandsvegi vestan Hunkubakka í desember 2017 með þeim afleiðingum að tveir farþegar létu lífið og nokkrir slösuðust alvarlega, hafi verið ekið of hratt. Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar um slysið sem birt var í dag.

Ennfremur telur rannsóknarnefndin að hemlageta hópbifreiðarinnar hafi verið of lítil og hemlakraftar ójafnir. Ökumaður hópbifreiðarinnar hafi brugðist of seint við eða ekið of nálægt fólksbifreiðinni miðað við aðstæður. Sömuleiðis hafi ökumaðurinn og nokkrir farþegar, þar á meðal þeir sem létust, ekki verið með öryggisbelti spennt og ökumaðurinn mögulega verið þreyttur. 44 ferðamenn voru í bifreiðinni auk leiðsögumanns og ökumanns.

„Slysið bar að með þeim hætti að ökumaður fólksbifreiðar á leið í austur hægði ferðina til að beygja út af til hægri inn á afleggjara áningarstað. Fyrir aftan fólksbifreiðina var hópbifreið ekið í sömu átt. Ökumaður hópbifreiðarinnar náði ekki að draga úr aksturshraðanum þegar fólksbifreiðin hægði á sér, en reyndi að sveigja yfir á akrein til vesturs og fara fram úr fólksbifreiðinni til að forða árekstri. Það tókst ekki og lenti hægra framhorn hópbifreiðarinnar á vinstra afturhorni fólksbifreiðarinnar, við það kastaðist fólksbifreiðin fram og náði ökumaður hennar að stöðva hana um 75 metrum frá árekstrarstað,“ segir í skýrslunni um það hvernig slysið hafi atvikast.

Hópbifreiðin hafi því næst lent með hjól út á vegfláan vinstra megin á veginum og hjólför í fláanum verið um 110 metrar. „Við enda hjólfaranna voru ummerki um að hópbifreiðin hafi verið komin í hliðarskrið og að hún hafi því næst oltið á vinstri hliðina og runnið að hluta þvert eftir veginum. Rann hópbifreiðin á hliðinni um 30 metra þar til hún stöðvaðist með framendann uppi á veginum við dæld í landslaginu við veginn.“ Ísing hafi verið utan hjólfaranna á veginum.

Haft er eftir vitni í hópbifreiðinni að ökumaðurinn hafi reynt að hemla þegar fólksbifreiðin dró skyndilega úr ökuhraðanum. „Vitnið greinir svo frá að ökumaður fólksbifreiðarinnar hafi ekki gefið stefnuljós en ökumaður fólksbifreiðarinnar kvaðst hafa gefið stefnuljós. Samkvæmt sama vitni nægði hemlun hópbifreiðarinnar ekki til að forða árekstri og reyndi ökumaðurinn þá að sveigja yfir á hinn vegarhelminginn en þá hafi fólksbifreiðinni verið sveigt til vinstri þannig að hópbifreiðin náði ekki að sveigja framhjá henni.“

Víða pottur brotinn varðandi hópbifreiðina

Varðandi ástand hópferðabifreiðarinnar hafi við rannsókn komið í ljós að ástand hemlakerfis hennar væri ábótavant. Hemlar í hægra framhjóli hafi virkað en engin virkni hafi verið á hemlum í vinstra framhjóli. „Vökvahemlakerfi var í framhjólum og var leki í kerfinu vinstra megin, þannig að engin vökvi var í dælunni og stimplar í hemladælu fastir. Lekinn var úr hemlaslöngu sem liggur frá forðabúri að höfuðdælu. Gaumljós í mælaborði sem á að kvikna þegar vökvamagn fer niður fyrir lágmark var bilað.“

Hemlun á vinstra afturhjóli hafi verið í lagi en fastur lykill hefði verið festur með plastbandi við útíherslu, líklega til þess að hindra að útíherslan losnaði. Plastbandið hafi verið óvarið fyrir steinkasti og hefðii þynnst um 21%. Tæring á lyklinum hafi gefið til kynna að hann hefði verið nýttur með þessum hætti í talsverðan tíma. Hemlun í hægra afturhjóli hafi verið nánast engin. Hópbifreiðin hafi verið útbúin negldum vetrarhjólbörðum en hins vegar hafi vantað orðið flesta naglana í hjólbarðana. Ekki er talið að neitt varðandi fólksbifreiðina hafi valdið slysinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert