Flókið mál að flytja mjaldrana

Flugvél Cargolux sem mun flytja hvalina til Íslands.
Flugvél Cargolux sem mun flytja hvalina til Íslands.

„Þessi tímabundna töf á vandasömum flutningi hvalanna er vegna veðurs og erfiðra aðstæðna til flutninga sjóleiðina frá landi til Vestmannaeyja. Flutningarnir fara fram þegar veður og aðstæður leyfa,“ segir í fréttatilkynningu frá góðgerðarsamtökunum Sealife Trust þar sem staðfest er að fyrirhugaðir flutningar á mjaldrasystrunum Little Grey og Little White með flugi frá Kína til Íslands hafi frestast.

„Það er flókið mál að endurskipuleggja flutninginn um langan veg á alþjóðavísu, en við vinnum náið með teymi okkar og flutningsaðilum til að fullkomna verkið. Fyrst og fremst höfum við velferð Little Grey og Little White í huga,“ segir enn fremur en mjaldrarnir áttu að koma til landsins í dag samkvæmt fyrri áætlun. Veður hér á landi og lokun Landeyjahafnar hefur áhrif í þessum efnum.

„Við höfum unnið vandlega með flutningsaðila okkar, sem er flugfélagið Cargolux í Luxemborg og íslenskum stjórnvöldum, til að geta flutt Little Grey og Little White á öruggan hátt á nýjar heimaslóðir í sjónum við Heimaey. Við viljum þakka öllum samstarfsaðilum óeigingjarnt starf, sérstaklega Cargolux og íslensku ríkisstjórninni,“ segir einnig. Mjaldrarnir verði undirbúnir af kostgæfni fyrir flutninginn á næstu vikum.

„Þetta er tímabundin töf sem mun ekki hefta okkur í skapa fyrsta griðastað hvala í heiminum í vernduðu sjávarumhverfi á Íslandi.“ Tilkynnt verði nánar um fyrirkomulag flutninganna þegar aðstæður leyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert