Sjö leikkonur lesa upp Passíusálma Hallgríms

Leikkonurnar sjö, frá vinstri Halla Guðmundsdóttir, Helga E. Jónsdóttir, Kristbjörg …
Leikkonurnar sjö, frá vinstri Halla Guðmundsdóttir, Helga E. Jónsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Steinunn Jóhannesdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Edda Þórarinsdóttir og Ragnheiður Steindórsdóttir. Ljósmynd/Hilmar Þorsteinn

Sjö leikkonur munu flytja Passíusálma Hallgríms Péturssonar í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa. Lesturinn hefst kl. 13 og mun ljúka upp úr kl. 18.
Umsjónarmaður verkefnisins er Steinunn Jóhannesdóttir en með henni lesa þær Edda Þórarinsdóttir, Halla Guðmundsdóttir, Helga E. Jónsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Margrét Guðmundsdóttir og Ragnheiður Steindórsdóttir. Sannkallað einvalalið leikkvenna, eða „grand old ladies,“ eins og Steinunn orðar það í samtali við Morgunblaðið.
„Við erum allar gamlar samstarfskonur úr leikhúsinu og þykir vænt hverri um aðra og verkefnið framundan,“ segir Steinunn.


Yfirskrift flutningsins að þessu sinni er „Svoddan ljós mætti fleirum lýsa“. Er það tilvitnun í samnefnda ritgerð Steinunnar um þær konur sem fengu send handrit að sálmunum frá Hallgrími vorið 1660. Hafði hann þá fengið hvatningu frá skáldbróður sínum til þess að hefja útbreiðslu á verki sínu. Treysti hann konunum til að kynna sálmana fyrir öðrum, verja þá fyrir gagnrýni og sjá til þess að þeim yrði ekki „undir bekk varpað“ eins og hann orðaði það sjálfur.

Gegndu lykilhlutverki

Konurnar voru Ragnhildur Árnadóttir í Kaldaðarnesi, Kristín Jónsdóttir í Einarsnesi og Helga Árnadóttir í Hítardal, allar innbyrðis tengdar og í áhrifastöðu á sínum tíma. Vorið 1661 fékk Ragnheiður Brynjólfsdóttir í Skálholti fjórða handritið ritað eigin hendi skáldsins, sem er það eina sem varðveist hefur til okkar daga, segir Steinunn.
„Handritin sem þessar samtímakonur Hallgríms fengu frá höfundinum gegndu lykilhlutverki fyrstu árin og aldirnar sem Passíusálmarnir voru að vinna sér sinn einstæða sess í sál þjóðarinnar. Það er til þess að heiðra minningu kvennanna í innsta hring skáldsins sem leikkonurnar sjö sameinast um flutning á verkinu nú,“ segir Steinunn ennfremur.


Hún hefur tvisvar áður staðið fyrir verkefni af þessum toga en í bæði skiptin í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Fyrra skiptið var 2014, þegar 400 ár voru liðin frá fæðingu Hallgríms. Seinna skiptið var í fyrra. Þá tóku fimm leikkonur þátt í flutningnum. Aðsóknin var það mikil að kirkjan troðfylltist. Í ár var svo ákveðið að flytja sálmana í Hallgrímskirkju á Skólavörðuholtinu og safna saman hópi sjö leikkvenna. Steinunn segir undirbúninginn hafa gengið mjög vel.
Tónlistin á föstudaginn langa verður í höndum Björns Steinars Sólbergssonar, organista Hallgrímskirkju. Flutningurinn hefst sem fyrr segir kl. 13, en ekki 13:30 eins og stóð í Morgunblaðinu

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert