Þinglýst eignarhald verður ekki skilyrði

Þinglýst eignarhald fasteignar verður ekki gert að skilyrði þess að …
Þinglýst eignarhald fasteignar verður ekki gert að skilyrði þess að fá leyfi til heimagistingar. Þrátt fyrir að fáir leigjendur leigi út íbúðir sínar og það sé almennt óheimilt, þótti það of íþyngjandi fyrir leigjendur. AFP

Fallið hefur verið frá því að gera þinglýst eignarhald að skilyrði fyrir skráningu heimagistingar, í endanlegum frumvarpsdrögum um breytingar á ákvæðum sem varða heimagistingu og eftirlit með henni. Þetta staðfestir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála í svari við fyrirspurn mbl.is.

„Í endanlegum frumvarpsdrögum eru því lagðar til tvær efnislegar breytingar, óbreyttar frá upphaflegum drögum, annars vegar varðandi skil á nýtingaryfirlitum og hins vegar varðandi viðurlög vegna brota á rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi, sem lagt er til að færist frá lögreglustjórum til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í svari ráðherra.

Viðskiptaráð Íslands og fleiri umsagnaraðilar við fyrri drög að frumvarpinu, sem var til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda í október síðastliðnum, töldu að með fyrirhuguðum lagabreytingum yrði samningsfrelsi leigjenda skert, þar sem leigjendum hefði verið gert það óheimilt að bjóða fram heimili sín í heimagistingu, jafnvel þrátt fyrir að fyrir liggi samþykki leigusala fyrir því.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála. mbl.is/Eggert

„Með því er loku fyrir það skotið að leigjendur geti haft tekjur af heimagistingu með framleigu íbúðarinnar á þeim tíma sem þeir hafa ekki not fyrir hana,“ sagði í umsögn Viðskiptaráðs, sem barst í samráðsgátt stjórnvalda.

Þótti of íþyngjandi fyrir leigjendur

Þórdís Kolbrún segir að þessari breytingu, sem viðruð var í upphaflegum drögum en nú hefur verið fallið frá, hafi meðal annars verið ætlað að koma í veg fyrir lögheimilisskráningar til málamynda og bætir því við að framleiga sé almennt óheimil samkvæmt húsaleigulögum, þrátt fyrir að undantekning sé á því, ef leigusali samþykkir framleigu.

„Samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu eru slíkar framleiguheimildir afar sjaldgæfar í þinglýstum húsaleigusamningum. Þá má benda á að almenn leigufélög, Félagsbústaðir og Stúdentagarðar heimila ekki framleigu, hvorki til ferðamanna né annarra.

Hvað sem því líður var ákveðið að fara ekki fram með þessa breytingu, þar sem það var metið of íþyngjandi gagnvart almennum leigjendum að svo stöddu,“ segir í svari ráðherrans.

mbl.is