Tímabært að verja hagsmuni Íslands

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Þorgeir

„Mér finnst blasa við núna, þegar málið hefur verið lagt fram og fyrstu umræðu um það á Alþingi lokið, að það hafa ekki komið fram nein rök fyrir því hvers vegna við eigum að innleiða þriðja orkupakkann. Hins vegar koma sífellt meiri upplýsingar um hætturnar sem í því felast. Það segir sína sögu þegar ráðherrar í núverandi ríkisstjórn afsaka það sem þeir eru að gera í þeim efnum með því að það sé einhvern veginn afleiðing af fortíðinni.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hyggst innleiða vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Til stendur að Alþingi samþykki innleiðingu löggjafarinnar með því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara en vegna gagnrýni á málið hyggst stjórnin fresta tímabundið gildistöku ákvæða sem talin eru fara í bága við stjórnarskrána.

Þannig hafi ráðherrar í ríkisstjórninni sagt það réttlætingu á eigin gerðum nú að þriðji orkupakkinn hafi ekki verið stöðvaður í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins 2013-2016 undir forsæti Sigmundar. Sigmundur segir hins vegar ljóst að þriðja orkupakkanum hafi ekki verið hleypt í gegn í tíð hans ríkisstjórnar. Pakkinn hafi ekki verið tekinn upp í EES-samninginn í gegnum sameiginlegu EES-nefndina fyrr en í maí 2017 í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Samningi sagt upp fyrir að fara eftir honum?

Sigmundur segir að fullyrðingar um að EES-samningurinn yrði í hættu ef Alþingi nýtir þann rétt sem Ísland hafi samkvæmt samningnum og hafni því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara af þriðja orkupakkanum, sem þýddi að málið færi aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem hægt yrði að óska eftir formlegri undanþágu frá honum, fela í sér stórhættulega nálgun. „Með því erum við að senda þau skilaboð að við samþykkjum allt sem á okkur er lagt í stað þess að nýta þann samningsbundna rétt sem við höfum.“

Ríkisstjórnin vilji hins vegar rökstyðja innleiðinguna með því einu annars vegar að þar sem Ísland hafi samþykkt fyrsta og annan orkupakka Evrópusambandsins verði að samþykkja þann þriðja líka og hins vegar með því að halda því fram að EES-samningurinn kunni að vera í hættu ef Íslendingar nýti heimild sem þeir hafi samkvæmt samningnum. Með öðrum orðum fyrir þá sök að fara eftir honum. „Þessi málflutningur verður svo auðvitað endurnýttur þegar Evrópusambandið sendir okkur orkupakka fjögur og fimm.“

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Sigmundur bendir á að það vanti ekki að ráðherrar í ríkisstjórninni og stjórnarþingmenn hafi opinberlega lýst áhyggjum af stöðugum kröfum Evrópusambandsins um meira framsal valds í gegnum EES-samninginn væri að grafa undan samningnum. Hins vegar væri síðan aðeins haldið áfram á sömu braut og látið undan sífellt fleiri kröfum sambandsins. „Talað er um að í þessi 25 ár frá gildistöku EES-samningsins höfum við ekki nýtt okkur þann rétt að hafna upptöku löggjafar. Þess heldur er það þá tímabært.“

„Þannig að í stað þess að nýta þann rétt sem við þó höfum samkvæmt EES-samningnum til þess að verja hagsmuni Íslands, að ætla bara að lifa í ótta og gefa stöðugt eftir í þeim efnum vegna einhverrar ímyndaðrar ógnar um að okkur verði refsað fyrir að fara eftir samningnum. Það er ekki góður bragur á því fyrir fullvalda ríki að nálgast málin með þessum hætti,“ segir Sigmundur. Það væri ansi sérstakt ef Evrópusambandið myndi segja upp samningi við Ísland af þeirri ástæðu að Íslendingar hefðu farið eftir honum.

Beiti sér gegn framsali á valdi til ESB

Spurður um nýja skoðanakönnun MMR, þar sem Miðflokkurinn jók fylgi sitt á sama tíma og stjórnarflokkarnir, einkum Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, töpuðu fylgi segir Sigmundur auðvitað alltaf gaman að sjá aukinn stuðning við flokkinn. Hins vegar hafi hann aldrei talið rétt að láta stjórnast af fylgiskönnunum. „Það er alltof mikið um það í dag að stjórnmálaflokkar séu dag frá degi að reyna að elta skoðanakannanir. Mér finnst að leiðarljósið í stjórnmálum eigi þvert á móti að hafa ákveðna sýn og stefnufestu.“

„Vitanlega getur þurft að laga sig að því ef í ljós kemur að hægt sé að gera hlutina betur en samt að hafa það mikla trú á því sem maður er að gera að láta ekki dægursveiflurnar trufla sig. Ef auðvitað er alltaf ánægjulegt að sjá fylgið þróast í réttar áttir,“ segir Sigmundur. Sigmundur segist gjarnan vilja sjá stjórnarflokkana fylgja þeirri stefnu sinni að beita sér gegn framsali á valdi frá Íslandi til Evrópusambandsins. Þetta mál sé einu sinni yfir flokkapólitík hafið enda snúist það um algera grundvallarhagsmuni þjóðarinnar.

mbl.is