Barnaverndarstofa vill áfrýja í máli Freyju

Freyja Haraldsdóttir segir beiðni Barnarverndarstofu um áfrýjun á dómi Landréttar …
Freyja Haraldsdóttir segir beiðni Barnarverndarstofu um áfrýjun á dómi Landréttar ekki koma sér á óvart. mbl.is/Ómar Óskarsson

Freyja Haraldsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður Bjartrar framtíðar, greinir frá því á Facebook-síðu sinni í dag að Barnaverndarstofa hafi óskað leyfis til að áfrýja dómi Landsréttar, sem úrskurðaði í síðasta mánuði að Barnaverndarstofa hefði mismunað Freyju vegna fötlunar.

Landsréttur snéri í mars sl. snéri við dómi Héraðsdóms Reykja­vík­ur í máli Freyju gegn Barnaverndarstofu, en héraðsdóm­ur hafði hafnað kröf­um Freyju um að fella úr gildi úr­sk­urð úr­sk­urðar­nefnd­ar vel­ferðar­mála frá 6. júní 2016. Þar var staðfest ákvörðun Barna­vernd­ar­stofu frá nóv­em­ber 2015 um synj­un á um­sókn Freyju um leyfi til þess að taka barn í fóst­ur.


 

Segir Freyja í færslu sinni að undanfarnar vikur hafi margir komið að máli við sig og sagst ekki trúa öðru en að Barnaverndarstofa  axli ábyrgð á dómnum, læri af innihaldi hans og leyfi henni að halda áfram eðlilegu matsferli til að reyna að gerast fósturforeldri.

„Mig langaði að trúa því líka en innst inni vissi ég að það yrði líklega ekki raunin. Ég hef í öllu þessu ferli verið reiðubúin að vera upplýsandi og svara spurningum þeirra sem skilja illa eða bara alls ekki hvernig ég sé fyrir mér að framkvæma móðurhlutverkið. Barnaverndarstofa hefur hinsvegar ekki sýnt vott af áhuga á að eiga við mig samtal/samtöl um áhyggjur sínar síðustu fimm ár. Þess vegna kom til þessa dómsmáls, allt annað var fullreynt.“

Barnaverndarstofa hafi vissulega fullt frelsi til að sækja um áfrýjunarleyfi. Freyja segist þó leyfa sér að efast „um fagmennskuna og siðferðið í því að ríkisstofnun gangi svo langt gegn óbreyttum borgara í máli sem varðar mismunun á grundvelli fötlunar til réttlátrar málsmeðferðar“.

Að málið tefjist enn frekar sé svo augljóslega ekki til hagsbóta fyrir þau börn sem bíði eftir góðum heimilum, segir Freyja og birtir með færslu sinni skjáskot af auglýsingu frá Barnaverndarstofu um fósturheimili.

Sjálf muni hún halda áfram og takast á við það sem framundan er — hvort sem komi til áfrýjunar eða ekki. „Niðurstaða landsréttar er skýr og afdráttarlaus. Hún markar líka tímamót í baráttusögu fatlaðs fólks innan réttarkerfisins. Ég treysti því einfaldlega að því réttlæti sem hefur verið náð fram þar verði haldið til streitu,“ segir Freyja.

mbl.is