Flyksan reyndist vera brandugla

Uglan hafði verið föst í vírnum í að minnsta kosti …
Uglan hafði verið föst í vírnum í að minnsta kosti sólarhring áður en henni var bjargað. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Það voru athugulir ökumenn sem komu auga á það, sem í fyrstu virtist flyksa föst í girðingu skammt frá þjóðveginum rétt innan við Þórshöfn. Flyksan reyndist hins vegar vera brandugla sem fest hafði annan vænginn í girðingunni og náðu þeir að losa hana.

Uglan virðist vera sæmilega á sig komin, en talið er að hún hafi verið föst í vírnum í að minnsta kosti einn sólarhring áður en henni var bjargað. Sést hafði til hennar daginn áður, en sá sem sá hana þá taldi um dauðan fælufugl að ræða.

Halldór Jónsson, annar bjargvætta uglunnar, segir þá hafa fengið leiðbeiningar …
Halldór Jónsson, annar bjargvætta uglunnar, segir þá hafa fengið leiðbeiningar hjá Náttúrufræðistofnun hvernig ætti að annast hana. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Uglan dvelur nú í pappakassa fylltum heyi í bílskúr annars bjargvætta sinna og tekur hún að þeirra sögn sæmilega við hráu kjöti sem hún er mötuð á ásamt vatni.

„Það er búið að hafa samband við Náttúrufræðistofnun og þar fengum við leiðbeiningar um hvernig ætti að annast hana í byrjun,“ segir Halldór Jónsson í samtali við mbl.is. Hann hýsir nú brandugluna í bílskúr sínum, en segir ekki útilokað að hún verði síðar send suður til Náttúrufræðistofnunnar.

Myndin sýnir hvernig uglan hafði fest vænginn í girðingunni.
Myndin sýnir hvernig uglan hafði fest vænginn í girðingunni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is