Kallaði Guðmund Andra „Samfylkingardrullu“

Maður sem titraði af reiði veitt­ist að Guðmundi Andra Thors­syni, …
Maður sem titraði af reiði veitt­ist að Guðmundi Andra Thors­syni, þing­manni Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, í matvöruverslun í vik­unni. Þingmaður­inn seg­ir að þarna hafi hann hitt reiða mann­inn í at­huga­semda­kerf­un­um. mbl.is/Hari

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segist hafa staðið augliti til auglitis við netbræðina eins og hún lítur út í raunveruleikanum í matvöruverslun í vikunni þegar karlmaður veittist að honum og kallaði hann „Samfylkingardrullu“.

Þingmaðurinn lýsir atvikinu í færslu á Facebook-síðu sinni í dag og hefst færslan á lýsingu á manninum. „Hann leit út eins og hver annar „sorrí-með-mig“-Garðbæingur (sbr. Baggalútslagið); í fallegum ullarjakka og með vandaðan gráan trefil vafinn um hálsinn, í hvítum jogging-buxum og með hannaða hárklippingu, með hárbrúski og rakstri. Verðbréfagutti í kasúal klæðnaði. En hann var samt ekki alveg þessháttar maður – þeir gangast upp í að vera vonda fólkið og eru fullir af pólitískum rangtrúnaði, en eru ekki slæmir náungar í rauninni. Held ég. Að minnsta kosti yfirleitt í góðu skapi – held ég.“

Guðmundur Andri var að versla ýmsar nauðsynjar fyrir heimilið í Hagkaupsbúðinni í Garðabæ þegar hann heyrði manninn segja: „Samfylkingardrulla“.

Titraði af reiði

„Mér brá svolítið, horfði strangur á svip – og ég get verið mjög strangur á svip – á saklausan unglingahóp sem ráfaði þarna um skríkjandi í hálfgerðu reiðuleysi. Og reiðileysi: ekki þau. Ég hélt áfram að safna í körfuna, tómötum, banönum, kaffi, kattamat ... þá heyrði ég aftur ókvæðisorð og leit upp, sá engan en þegar ég steig nokkur skref til hliðar sá ég hann þar sem hann horfði á mig æstur,“ segir í færslu þingmannsins.

Guðmundur Andri ávarpaði manninn og spurði: „Ertu að tala við mig?“

„Þá kom ný gusa um það hvílíkur lygari ég væri og viðbjóður, ég vildi flytja inn í landið barnaníðinga frá Svíþjóð, hvort ég vissi ekki hvernig ástandið væri í Svíþjóð. Hann titraði af reiði. Hann var svo hræddur við alla múslimana sem hingað væru á leiðinni frá Svíþjóð og reiður mér fyrir að standa fyrir þessum innflutningi. Ég lagði ekki í að spyrja hann hvað honum fyndist um 3. orkupakkann en sagði honum að hætta að áreita mig, annars myndi ég kalla á öryggisvörð og fór. Það var einhver óhugur í mér,“ skrifar Guðmundur Andri.

Hitti reiða manninn í athugasemdakerfunum

Hann lýsir því svo að aldrei áður hafi hann staðið augliti til auglitis við netbræðina eins og hún lítur út í raunveruleikanum. „Svona leit hann þá út, reiði maðurinn í athugasemdakerfunum. Kannski var þetta veikur maður en það sem vall upp úr honum var sami reiðilesturinn og við getum daglega séð á netmiðlum og heyrt skötuhjúin á Útvarpi Sögu draga upp úr viðmælendum sínum til að eitra hugi vesalings gamla fólksins sem hefur ekki lengur Sagnaslóð í útvarpinu að hlusta á,“ segir í færslunni.

Guðmundur Andri segir það vera ábyrgðarhluta að næra reiði af þessu tagi eins og stundum megi sjá stjórnmálamenn gera á kaldrifjaðan hátt til að valdefla sig. „Það er hættulegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina