Tveir sýnt áhuga á Sigurfara

Kútter Sigurfari.
Kútter Sigurfari. Ljósmynd/Byggðasafnið í Görðum

Tveir aðilar hafa haft samband við Akraneskaupstað og lýst áhuga á því að eignast kútter Sigurfara sem staðið hefur við Byggðasafnið í Görðum undanfarna áratug.

Þetta staðfestir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, í samtali við mbl.is. Bæjarráð Akraness samþykkti á fundi sínum í lok síðasta mánaðar að óska eftir leyfi frá Minjastofnun til þess að farga skipinu sem er orðið mjög illa farið.

Fram kemur í bréfi bæjarráðs til Minjastofnunar að áður en til förgunar kæmi yrði áhugasömum aðilum gefinn kostur á að eignast Sigurfara. Ef ekki næðist samkomulag um það yrði skipinu fargað. Bréfið fylgdi fundargerð bæjarráðs frá fundinum.

Forsenda þess að hægt verði að bjóða áhugasömum að eignast Sigurfara og ræða við þá sem sýna því áhuga er að grænt ljós fáist til þess frá bæði Minjastofnun og Þjóðminjasafninu. Skipið hefur því ekki enn verið boðið áhugasömum til eignar.

Kútter Sigurfari var smíðaður árið 1885 í Englandi og keyptur til Íslands 1897. Skipið var selt til Færeyja árið 1920 en keyptur aftur til Íslands á áttunda áratug síðustu aldar.

mbl.is