Gylfi ekki ákærður fyrir hatursorðræðu

Tónlistarmaðurinn Gylfi Ægisson var kærður fyrir hatursorðræðu árið 2015. Lögreglustjórinn …
Tónlistarmaðurinn Gylfi Ægisson var kærður fyrir hatursorðræðu árið 2015. Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur nú ákveðið að fella málið niður þar sem það sé ekki líklegt til sakfellingar. mbl.is/Eggert

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur fellt niður mál á hendur tónlistarmanninum Gylfa Ægissyni. Samtökin 78 kærðu Gylfa og nokkra aðra fyrir hatursorðræðu árið 2015. Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV sem segir fram koma í bréfi lögreglustjóra að málið þyki ekki líklegt til sakfellingar. Þess vegna hafi það verið fellt niður.

Í bréfi lögreglustjóra kemur fram að ummælin hefðu verið látin falla á opinberum vettvangi á árunum 2013 til 2015 og ummælin hefðu beinst að árlegri Gleðigöngu Hinsegin daga á Íslandi, samkynhneigðum almennt, Samtökunum 78 á Íslandi, ríkissaksóknara og fleirum.

Hefur RÚV eftir Gylfa að hann sé feginn að málinu sé lokið, nú mörgum árum síðar.

mbl.is