Í gæsluvarðhald með falskt vegabréf

Landsréttur staðfesti gæsluvarðhald yfir manninum og mun það standa til …
Landsréttur staðfesti gæsluvarðhald yfir manninum og mun það standa til 24. apríl. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur um gæsluvarðhald yfir manni sem var handtekinn á þriðjudag er hann notaði falsað skilríki í banka. Kom þá í ljós að maðurinn var eftirlýstur og með endurkomubann og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til 24. apríl. 

Manninum var gert skylt að yfirgefa landið í fyrra, en hvarf þegar brottvísunin átti að koma til framkvæmdar.

Við skýrslutöku hjá lögreglu sagðist maðurinn fyrst hafa komið til landsins 2018 en hann hafi svo farið af landi brott. Hann hafi síðan komið til landsins á nýjan leik 18, febrúar á þessu ári. Sagðist maðurinn hafa yfirgefið landið þar sem hann hafi ekki fengið kennitölu á grundvelli síns vegabréfs, sem gerði honum kleift að stunda vinnu. Þá hafi hann aflað sér ríkisborgararéttar í ótilgreindu landi og komið svo á ný til Íslands þar sem hann taldi sig eiga rétt á að vinna hér á landi.

Vegabréfið sem maðurinn hafði framvísað var falskt og tjáði maðurinn að hann hafi keypt umrætt skilríki, en að hann hafi ekki vitað að það væri falsað.

Er talið að maðurinn muni aftur reyna að koma sér undan framkvæmd brottvísunar og þess vegna sé ástæða til þess að úrskurða gæsluvarðhald yfir honum.

mbl.is