Átta útköll vegna fólks í andlegu ójafnvægi

Í dagbók lögreglu kemur fram að í öllum tilfellum fóru …
Í dagbók lögreglu kemur fram að í öllum tilfellum fóru lögreglumenn á vettvang og reyndu eftir fremstu getu að aðstoða einstaklingana. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti í nótt og gærkvöldi átta útköllum vegna fólks í andlegu ójafnvægi, víðs vegar í borginni og nágrenni hennar. Í dagbók lögreglu kemur fram að í öllum tilfellum fóru lögreglumenn á vettvang og reyndu eftir fremstu getu að aðstoða einstaklingana. Bæði með því að stilla til friðar og aðstoða einstaklinganna við að leita sér viðeigandi aðstoðar innan geðheilbrigðiskerfisins.

Laust fyrir klukkan níu í gærkvöldi hafði lögregla afskipti af tveimur einstaklingum í Breiðholti. Þeim var gefið að sök að hafa tekið vörur ófrjálsri hendi úr verslun. Lögregla tók niður framburð þeirra á vettvangi og var þeim gefið leyfi til að fara að svo búnu.

Um hálf tíuleitið skakkaði lögregla slagsmál i Kópavogi og skömmu eftir miðnætti var par handtekið í hótelherbergi í austurborginni, en greitt hafði verið fyrir gistinguna með stolnu greiðslukorti. Parið var vistað í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.

Þá hafði lögregla afskipti af fjórum ökumönnum í nótt vegna gruns um  akstur undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is