„Loftslagsváin er þögul ógn“

Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, og Pétur Halldórsson, formaður …
Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, og Pétur Halldórsson, formaður Ungra umhverfissinna, voru viðstödd mótmælin en þau sjást hér í forgrunni myndarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Níunda loftslagsverkfallið var haldið á Austurvelli í Reykjavík í dag. Hingað til hafa verkföllin verið mjög kraftmikil en í dag var ákveðið að verkfallið yrði þögult og sitjandi vegna föstudagsins langa. Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta, segir að það hafi verið viðeigandi. 

„Loftslagsváin er þögul ógn og hefur læðst upp að manni þannig að nálgast þetta svona á þöglan máta er táknrænt fyrir það sem við stöndum frammi fyrir. Það var mjög góð stemmning og mikill samhugur á staðnum svo þetta var ágætis tilbreyting.“

Áhrif verkfallanna sýnileg

Nú hafa verkföllin verið haldið níu föstudaga í röð og segir Elsa að þau hafi skilað árangri þrátt fyrir að enn megi gera umtalsvert betur. „Við höfum nú þegar fundað með umhverfisráðherra og forsætisráðherra og eigum fund með fjármálaráðherra í maí líka. Þau hafa hlustað á okkur og tekið mjög vel í það sem við höfum lagt fram á borðið en auðvitað viljum við enn þá meira og betur má en duga skal.“

 „Það þarf að gera meira og gera það hraðar

Elsa bætir því við að það þurfi að grípa til róttækra aðgerða eins fljótt og hægt er. „Það þarf að gera meira og gera það hraðar. Það er ótrúlega gott að sjá svona viðleitni frá stjórnvöldum. Þá má náttúrulega túlka þetta sem svo að við erum að hvetja þau til dáða og við erum að biðja þau um að gera enn þá meira en þau eru að gera núna.“

Til þessa hafa aðallega ungmenni á skólaaldri tekið þátt í mótmælunum. „Þetta er fyrst og fremst skólafólk en það mátti alveg sjá að það voru fleiri kynslóðir á staðnum í dag heldur en hefur verið síðustu vikur. Við höfum verið að vekja athygli á því að það vantar stuðning frá eldri kynslóðum í þetta.“

Skilur róttæk mótmæli í Lundúnum

Í Lundúnum mótmælir ungt fólk nú aðgerðarleysi í loftslagsmálum og hefur hópurinn meðal annars beint sjónum sínum að Heathrow flugvelli og truflað samgöngur. Aðspurð segist Elsa skilja þessar aðgerðir vel. 

„Þau mótmæli eru mun ákveðnari og ég skil þau ótrúlega vel. Ég veit að það er áhugi fyrir sambærilegu hér á landi. Við höfum samt ekki verið í því í loftslagsverkfallinu sjálfu, við höldum okkur við skólaverkföllin en það er áhugavert að sjá hvernig verður tekið í þetta hér á landi vegna það er mjög alvarlegt ástand í loftslagsmálum og ég skil vel að fólk vilji grípa til aukinna aðgerða.“

Elsa segir áframhaldandi verkföll framundan. „Við munum halda áfram. Í næstu viku verður tíunda loftslagsverkfallið hér á landi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert