Vorfæri á skíðasvæðum landsins í dag

mbl.is er á skíðavaktinni um páskana.
mbl.is er á skíðavaktinni um páskana. mbl.is/Golli

Vel viðrar til skíðaiðkunar víða um land á þessum laugardegi fyrir páskadag. Veður og færð eru ágæt víðast hvar, en höfuðborgarbúar sitja þó eftir þar sem skíðasvæðunum í Bláfjöllum og Skálafelli hefur verið lokað þennan veturinn.

mbl.is er á skíðavaktinni um páskana og hér fyrir neðan má sjá opnunartíma og nánari upplýsingar frá skíðasvæðum landsins. Þá er hægt að smella á nöfn skíðasvæðanna til þess að fara á vefsíður þeirra fyrir frekari upplýsingar.

Hlíðarfjall Akureyri: Opið frá 9 til 16. Ágætisveður og bjart yfir fjallinu. Hiti rétt yfir frostmarki.

Skarðsdalur Siglufirði: Opið frá 10 til 16. Suðvestanátt, 6 stiga hiti og bjart. Færi troðinn blautur snjór, brekkur breiðar og góðar.

Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar: Opið frá 10 til 17. Vilji fólk stunda skíðagöngu í „rjómafæri“ er best að byrja á gatnamótum á Breiðdalsheiði, að því er segir á vef Dalanna tveggja.

Böggvisstaðafjall Dalvík: Opið frá 10 til 16. Barnabrekka, efri- og neðri lyftubrekka opnar. Suðsuðvestanátt rúmlega 6 stig og hiti 7 stig.

Stafdalur Seyðisfirði: Opið frá 10 til 16. Færi er blautt vorfæri, orðið þunnt á neðra svæðinu en fínt á efra svæði. Hiti 5 stig.

Oddsskarð Fjarðabyggð: Opið 10 til 16 og 19 til 22. Byrjendalyfta og ein topplyfta opin upp að miðju, en flatinn sunnan við topplyftu er krapapollur og að mestu snjólaust. Suðvestanátt 4 til 6 m/s og hiti 5 stig. Vorfæri í brekkum og dagurinn endar á flugeldasýningu klukkan 22.

mbl.is