Aldrei fóru fleiri vestur

Rapparinn með ljúffenga nafnið, Herra Hnetusmjör, kom öllum í stuðgírinn …
Rapparinn með ljúffenga nafnið, Herra Hnetusmjör, kom öllum í stuðgírinn á Aldrei fór ég suður um helgina. Ljósmynd/Ásgeir Þrastarson

„Það var ekkert drama,  allt gekk upp og meira til, og aðsóknin hefur aldrei verið meiri,“ segir Kristján Freyr Hall­dórs­son, rokk­stjóri tón­list­ar­hátíðar­inn­ar Aldrei fór ég suður, í samtali við mbl.is. Hátíðinni lauk í gær og það má heyra á Kristjáni að hann er í skýjunum með nýafstaðna hátíð.

Sjoppan sló í gegn

Kristján segir að samkvæmt mati Vegagerðarinnar hafi um 4.500 manns komið keyrandi norður Ísafjarðardjúp fyrir og um helgina. Þá segist hann aldrei hafa séð fleira fólk á hátíðarsvæðinu, en hann hefur komið að skipulagningu hátíðarinnar mörg síðustu ár. 

Aðspurður segir Kristján að ýmislegt nýtt hafi verið á hátíðinni í ár, og nefnir í því dæmi sjoppuna sem komið var á fót fyrir hátíðina, Aldrei-mathöll. „Hún sló algjörlega í gegn,“ segir Kristján.

Plokkfiskur fyrir löggurnar

Spurður hvort nokkuð vesen hafi verið á hátíðargestum segir Kristján svo ekki hafa verið. Menn hafi meira að segja hagað sér svo vel að þegar lögregluþjónar komu á svæðið stuttu fyrir lokun í gærkvöld, og Kristján hafi spurt þá hvort allt væri með kyrrum kjörum, hafi einn þeirra svarað: „Jújú. Ég ætlaði bara að ná að panta mér plokkfisk áður en sjoppan lokaði.“

Þegar Kristján lýkur símtalinu við blaðamann er hann í þann mund að hefja páskaveislu fyrir poppara hátíðarinnar þar sem auðvitað er boðið upp á páskalamb, samkvæmt venju. Hann kveður glaður í bragði, spenntur fyrir hátíðinni að ári. 

Kristján Freyr Halldórsson.
Kristján Freyr Halldórsson. mbl.is/Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert