„Hún flýgur aldrei aftur“

Uglan er ekki komin með nafn en Halldór segir hana …
Uglan er ekki komin með nafn en Halldór segir hana koma til með að heita eitthvað. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

„Það væsir ekkert um hana hjá mér, hún virðist hafa það mjög gott,“ segir Halldór Jónsson um brandugluna sem hann bjargaði úr girðingu skammt frá Þórshöfn ásamt félaga sínum á dögunum. 

Talið er að uglan hafi setið föst í gaddavírsgirðingu í hið minnsta sólarhring áður en henni var bjargað, en sinarnar og taugarnar í vængnum eru svo skemmdar að Halldór hefur ákveðið að taka hana einfaldlega að sér. „Hún flýgur aldrei aftur. En hún hefur það gott hjá mér, lifir á eðalfæði og hefur heilan bílskúr út af fyrir sig.“

Að sögn Halldórs hefur fjöldi fólks sett sig í samband vegna uglunnar og boðist til að taka hana að sér. „Hún er virkilega eftirsótt en ég held hún hafi það ekkert betra annars staðar. Hún er farin að þekkja mig og éta úr lófanum á mér, þótt stundum komi klærnar og sitji fastar í puttanum á mér.“

„Hún er farin að þekkja mig og éta úr lófanum …
„Hún er farin að þekkja mig og éta úr lófanum á mér, þó stundum komi klærnar og sitji fastar í puttanum á mér.“ mbl.is/Líney Sigurðardóttir
Uglan hefur það fínt í bílskúrnum hjá Halldóri.
Uglan hefur það fínt í bílskúrnum hjá Halldóri. Ljósmynd/Halldór Jónsson
mbl.is