Messað við sólarupprás

Kristján Valur Ingólfsson við Þingvallarkirkju við sólarupprás laust fyrir klukkan …
Kristján Valur Ingólfsson við Þingvallarkirkju við sólarupprás laust fyrir klukkan 6 í morgun. mbl.is/Sigurður Bogi

„Kristur er sannarlega upprisinn,“ sagði séra Kristján Valur Ingólfsson, prestur við guðsþjónustu í Þingvallakirkju nú í morgun, páskadag. Eins og hefð er fyrir var upprisumessa sungin á Þingvöllum á þessum degi, og hófst hún kl. 5:50 eða nærri sólarupprás.

Upprisan undrið mesta

Athöfnin hófst á því að söfnuðurinn fylgdi séra Kristjáni Val í þjóðargrafreitinn sem er skammt frá kirkjunni. Þar var litið til austurs og mátti þá sjá djarfa fyrir sólinni inn í blýgráu skýjaþykkni á himninum. Svo var gengið aftur til kirkju, þar sem presturinn leiddi hátíðarmessu með prédikun og altarisgöngu. Hver bekkur var skipaður og voru kirkjugestir um 50 talsins.

„Páskarnir eru undur. Lífið sjálft er óskiljanlegt undur. Upprisan undrið mesta,“ sagði sr. Kristján í predikun sinni. „Inntak hans er að það var sjálfur höfundur lífsins sem kom til jarðarinnar og gerðist maður eins og þú, fæddur af Maríu og lagður í jötu, lítið ósjálfbjarga barn, til þess að taka á sig alla mannlega neyð, allar misgjörðir þeirra og syndir og síðast dauðann sjálfan sem er afleiðing syndarinnar, og sigra það allt.“

Í 20. og síðasta sinn

Séra Kristján Valur hefur annast upprisumessur  á Þingvöllum á hverjum páskadagsmorgni síðan árið 2000. Hann mun einnig messa í kirkjunni kl. 14 í dag. Athöfnin nú í morgunsárið var því sú 20. sem hann annast og jafnframt sú síðasta, en hann eftirlætur nú öðrum keflið og helgihald þetta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert